Erlent

Langvarandi Covid-19 fátítt meðal barna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Börn verða almennt mun minna veik af Covid-19 en fullorðnir.
Börn verða almennt mun minna veik af Covid-19 en fullorðnir. Getty/Dan Kitwood

Börn og ungmenni virðast sjaldan þjást af langvarandi einkennum í kjölfar Covid-19, samkvæmt niðurstöðum breskrar rannsóknar. Eldri börn eru almennt lengur veik en yngri börn.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að börn, sem verða jafnan minna veik af Covid-19 en fullorðnir, nái sér í flestum tilvikum á innan við viku. Aðeins fá börn finna fyrir langvarandi einkennum, en algengust þeirra eru höfuðverkir og þreyta.

Sérfræðingur hjá Royal College of Paediatrics and Child Health segir niðurstöðurnar endurspegla upplifun heilbrigðisstarfsfólks. Þær voru birtar í Lancet Child and Adolescent Health Journal.

Rannsakendurnir skoðuðu gögn 1.734 barna á aldrinum 5 til 17 ára sem sýndu einkenni og greindust með Covid-19 á tímabilinu september 2020 til febrúar 2021.

Færri en eitt barn af 20 var með einkenni í fjórar vikur eða lengur og aðeins eitt af 50 í átta vikur eða lengur. Börn á aldrinum 12 til 17 ára voru almennt um viku að jafna sig en yngri börn fimm daga.

Til viðbótar við höfuðverk og þreytu voru hálssærindi og breytt lyktarskyn meðal algengustu einkenna.

Rannsakandurnir skoðuð einnig göng jafn margra barna sem voru með einkenni einhvers konar flenskueinkenni en reyndust ekki með Covid-19. Færri en eitt barn af hverjum 100 sýndi einkenni í fleiri en 28 daga.

Vísindamennirnir segja niðurstöðurnar sýna að börn geta fengið langvarandi Covid-19 en það sé afar fátítt. Þá segja þeir mikilvægt að hlusta á foreldra sem segja börnin sín sýna einkenni og veita þeim litla hóp sem er veikur lengi viðeigandi stuðning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×