Tsimanouskaya var tekin úr keppnisliði Hvíta-Rússlands á laugardag eftir að hún gagnrýndi þjálfara sína á samskiptaforritinu Telegram fyrir að ætla henni að keppa í 400 metra boðhlaupi. Hún átti að keppa í 200 metra spretthlaupi í dag en að hennar sögn var hún skráð, án hennar vitneskju, í boðhlaupið vegna þess að liðsmenn voru ekki með keppnisleyfi þar sem tilskilin lyfjapróf vantaði.
Að sögn Ólympíunefndar Hvíta-Rússlands var Tsimanouskaya tekin úr liðinu að læknisráði vegna andlegrar líðan hennar.
Í kjölfar þess að henni var tilkynnt að hún myndi ekki keppa fyrir hönd Hvíta-Rússlands var henni fylgt á Haneda flugvöllinn þar sem hún átti að fara um borð í flugvél á leið til Hvíta-Rússlands. Hún hins vegar neitaði að fara um borð í vélina og leitaði verndar hjá japönsku lögreglunni á flugvellinum.
Yfirvöld í Póllandi og Tékklandi buðu henni þegar hæli. Þá hafði hvítrússneskur íbúi í Japan sagt í samtali við fréttastofu Reuters að hún hygðist sækja um hæli í Japan. Það var svo í dag, klukkan 5 síðdegis að staðartíma, sem Tsimanouskaya gekk inn í pólska sendiráðið í Tókýó þar sem við henni tóku tveir starfsmenn sendiráðsins og héldu á rauðum og hvítum fána, merki stjórnarandstöðunnar í Hvíta-Rússlandi.
Málið hefur vakið mikla athygli en mikil óstöðugleiki hefur ríkt í Hvíta-Rússlandi undanfarið ár. Þann 9. ágúst 2020 hófust mikil mótmæli þegar niðurstöður forsetakosninga lágu fyrir, en Alexander Lúkasjenkó bar sigur úr bítum í þeim þó að margir haldi því fram að hann hafi beitt víðtæku kosningasvindli. Síðan þá hefur landsstjórnin herjað hart að stjórnarandstæðingum.
Samkvæmt heimildamanni fréttastofu Reuters í innanríkisráðuneyti Úkraínu hefur eiginmaður Tsimanouskayu, Arseni Zhdanevich, flúið til Úkraínu. Ekki liggur fyrir hvort hann muni fara til Póllands til að hitta Tsminaouskayu fyrir þegar hún kemur þangað.