Sport

Íslenska Húsa­fells­hellan í appel­sínu­gulum felu­búningi á heims­leikunum í Cross­Fit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Karl Guðmundsson og @roguefitness husafell bag eins og hann heitir á ensku.
Björgvin Karl Guðmundsson og @roguefitness husafell bag eins og hann heitir á ensku. Samsett/Instagram

Heimsleikarnir í CrossFit hefjast á morgun og Íslandstengingin er víða á heimsleikunum í CrossFit í ár og ekki bara þegar kemur að frábærum íslenskum keppendum.

Dave Castro, hæstráðandi hjá CrossFit samtökunum, kynnti til leiks nýjan hlut sem keppendur þurfa að glíma við í baráttunni um heimsmeistaratitilinn í ár.

Rogue Fitness Húsafells pokinn er appelsínugulur og í laginu eins og hin fræga Húsafellshella sem kraftajötnar hafa borið um í keppnum hér á landi.

Nú mun Húsafellspokinn mögulega skilja á milli í baráttunni á heimsleikunum í CrossFit í ár.

Húsafellshellan er 186 kíló á þyngd en þó að Húsafells pokinn sé líkur henni í laginu þá er hann eflaust mun léttari en það.

Hér fyrir ofan má sjá færsluna sem kynnti Húsafells pokann til leiks.

Björgvin Karl Guðmundsson, sem keppir í karlaflokki og þykir líklegur til afreka nú sem áður, fagnaði fréttunum og tjáði sig á Instagram síðu heimsleikanna.

„Finnst eins og það sé skylda mín að standa mig vel í þessari grein. Að auki þá er Húsafell uppáhaldsstaðurinn minn á Íslandi. Takk fyrir þetta,“ skrifaði Björgvin Karl.

Heimsleikarnir í CrossFit hefjast á miðvikudaginn og nýir heimsmeistarar verða síðan krýndir á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×