Innlent

Vonar að gripið verði til að­gerða „eins fljótt og hægt er“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir vonast til að gripið verði til innanlandsaðgerða eins fljótt og hægt er. 
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir vonast til að gripið verði til innanlandsaðgerða eins fljótt og hægt er.  Vísir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist vona að gripið verði til aðgerða innanlands eins fljótt og hægt er. Þórólfur ætlar að skila minnisblaði með tillögum að takmörkunum innanlands til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í dag.

Þetta segir Þórólfur í samtali við fréttastofu en hann tilkynnti á upplýsingafundi almannavarna fyrr í dag að hann ætli að leggja til innanlandstakmarkanir. 78 greindust smitaðir af kórónuveirunni í gær, sem er mesti fjöldi það sem af er ári. 59 af þeim smituðu greindustu utan sóttkvíar.

Hann segist ekki viss um hvenær aðgerðir taki gildi verði gripið til þeirra en vonast til að það verði sem fyrst. Samkvæmt heimildum fréttastofu mun ríkisstjórnin funda í ráðherrabústaðnum á morgun.

„Það er alfarið á ábyrgð ráðherra, sem ber ábyrgð á þessum málaflokki, að ákveða það. En ég vona bara að það verði gert sem fyrst. Ef menn ætla að grípa til aðgerða er eins gott að gera það eins fljótt og hægt er,“ segir Þórólfur.

„Það er allt undir finnst mér,“ bætir hann við.

Þórólfur segist ekki vilja greina frá tillögum sínum um takmarkanir fyrr en ráðherra og ríkisstjórn eru búin að fjalla um tillögurnar.

„Mér finnst það ekki viðeigandi en við höfum verið að grípa til svipaðra ráðstafna fyrr í faraldrinum sem hafa nýst okkur vel. Ég held að við þurfum að nýta okkur það áfram.“


Tengdar fréttir

Fólki með Janssen verður boðinn annar skammtur af bóluefni

Til stendur að bjóða öllum sem hafa verið bólusett með efni Janssen aukaskammt af öðru bóluefni til að efla vernd þeirra gegn kórónuveirunni. Hið sama á við um fólk sem er með bælt ónæmiskerfi eða hefur sýnt veikt ónæmisvar í kjölfar bólusetningar.

Leggur til takmarkanir innanlands

Þórólfur Guðnason sóttvarnalækir mun senda Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra minnisblað með tillögum að auknum takmörkunum hér innanlands í dag. Þetta sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×