Marta skoraði tvö marka Brasilíu í sigrinum á þeim kínversku og var þar með fyrsti fótboltaleikmaðurinn til að skora á fimm Ólympíuleikum í röð, frá því að hún skoraði fyrst í Aþenu 2004.
Hinn 35 ára gamli framherji skoraði fyrsta mark Brasilíu í leiknum á níundu mínútu og skoraði það síðara stundarfjórðungi fyrir leikslok. Hún hefur skorað 111 mörk fyrir landsliðið á ferlinum og hefur sex sinnum verið valin besti leikmaður heims.
Eftir mörkin tvö í morgun hefur hún skorað alls 12 mörk á Ólympíuferli sínum, og er aðeins tveimur mörkum frá metinu sem landa hennar Cristiane á, upp á 14 mörk.
Félagi Mörtu í landsliðinu, miðjumaðurinn Formiga, varð þá fyrsti fótboltamaðurinn, hvort sem er í karla- eða kvennaflokki, til að taka þátt í sjö Ólympíuleikum. Formiga er 43 ára gömul og spilar fyrir Sao Paulo í heimalandinu og var að spila sinn 201. landsleik gegn Kína.
Hún spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir Brasilíu á HM 1995, þá 17 ára, og tók fyrst þátt á Ólympíuleikunum ári síðar, í Atlanta 1996, þar sem kvennaknattspyrna var í fyrsta sinn á meðal keppnisgreina.
Formiga sækist eftir að ná loks í Ólympíugullið en hún hlaut silfur árin 2004 og 2008. Þá féll Brasilía úr leik fyrir Svíþjóð í undanúrslitum leikanna 2016 á heimavelli í Ríó de Janeiro.