Jeminn eini, og hvað þá?!
Í fyrsta lagi er ágætt fyrir okkur að hafa í huga að eitthvað neyðarlegt er eitthvað sem gerist stundum fyrir ALLA.
Líka forstjórann.
Verandi að vinna í fjörtíu klukkustundir á viku eða þar um bil, er það líka bara alveg eðlilegt. Því við erum mannleg og enginn er fullkominn.
Málið snýst því ekki um það að lenda aldrei í neinu neyðarlegu, heldur frekar að bregðast rétt við því þegar eitthvað gerist í vinnunni sem okkur finnst virkilega neyðarlegt.
Hér eru nokkur góð ráð.
1. Ekki reyna að koma þér undan því
Gagnvart fólkinu í kringum þig og öllum aðstæðum, er það enn neyðarlegra í neyðarlegum aðstæðum ef viðkomandi aðili reynir að koma sér undan því að hafa sagt eitthvað eða gert mistök.
Þannig að það fyrsta sem við þurfum að gera, er að játast því sem gerðist.
Þótt okkur finnist það erfitt eða neyðarlegt.
2. Höldum ró okkar
Jú, jú. Við roðnum. Jafnvel alveg niður í tær.
Að roðna eru ósjálfráð viðbrögð og fólk roðnar mismikið og misáberandi. En þótt roðinn hlaupi fram í kinnar er mikilvægt að halda ró okkar.
Ekki að fara í geðshræringu, sem getur gert allar aðstæður enn vandræðalegri.
Og enn eftirminnilegri fyrir samstarfsfólk okkar eða viðskiptavini.
Við erum líka líklegri til að bregðast rangt við ef við förum í mikið uppnám. Því þá getur kvíðinn tekið völd.
3. Afleiðingar og lausnir
Stundum þurfum við líka að vera svolítið fljót að hugsa. Því kannski gerðist eitthvað mjög neyðarlegt sem gerir það að verkum að við þurfum að leiðrétta hlutina strax, laga eitthvað, bæta eitthvað eða leysa úr einhverju.
Þegar eitthvað virkilega neyðarlegt gerist, er því betra að setja fókusinn á hverjar afleiðingarnar mögulega eru. Fyrir okkur, vinnustaðinn, vinnufélagana eða viðskiptavininn.
Setjum orkuna í að bæta úr aðstæðum eins og hægt er.
4. Lærum strax
Mistök eru til þess að læra af og það á svo sannarlega einnig við um allt það sem mögulega getur gerst hjá okkur í vinnunni og okkur finnst neyðarlegt.
Þannig að hvað svo sem gerðist, stórt eða smátt: Hvað getum við lært af því?
5. Sleppum tökunum
Auðvitað líður okkur samt illa. Finnum hnútinn í maganum og finnst þetta allt saman vandræðalegt. Jafnvel skömmumst okkar.
En ef við bregðumst rétt og vel við, er enginn stór skaði skeður. Við getum borið höfuðið hátt og þurfum ekki að taka þetta neyðarlega atvik með okkur heim eða halda að allir „haldi nú þetta eða hitt“ um okkur.
Hluti af því að bregðast rétt við, er líka það að sleppa tökunum þegar búið er að bæta úr því sem miður fór, ef svo bar undir.
Oft er það þó svo að það sem okkur finnst virkilega neyðarlegt, er eitthvað sem öðrum finnst smávægilegt og jafnvel bara fyndið eitt augnablik. Er það svo alvarlegt?