Erlent

„Verðum að læra að lifa með vírusnum“

Samúel Karl Ólason skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AP/Daniel Leal-Olivas

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í dag nýja áætlun ríkisstjórnar hans um það að „lifa með Covid-19“ en sú áætlun snýr að því að fella niður sóttvarnaaðgerðir og félagsforðun á Englandi. Niðurfellingarnar munu hefjast þann 19. júlí.

Í ræðu forsætisráðherrans sagði hann að faraldrinum væri ekki lokið. Hvatti hann fólk til að viðhalda persónubundnum sóttvörnum og að láta bólusetja sig.

Fjöldi nýsmitaðra á Bretlandseyjum hefur aukist töluvert á undanförnum mánuði og er talan að nálgast þrjátíu þúsund á dag. Johnson sagði mögulegt að talan væri komin í fimmtíu þúsund fyrir 19. júlí, eins og fram kemur í frétt Sky News.

Umfangsmiklar bólusetningar hafa þó fækkað tilfellum alvarlegra veikinda og dauðsföllum verulega. Heilt yfir hafa 33,7 milljónir Breta fengið tvo skammta bóluefnis og 45,4 milljónir hafa fengið einn skammt.

Þrátt fyrir það hefur innlögnum á sjúkrahús farið fjölgandi undanfarna daga. Innlagnir eru þó um tíu sinnum færri en þær voru síðast þegar fjöldi nýsmitaðra dag frá degi var á svipuðum slóðum.

Meðal þeirra aðgerða sem ríkisstjórn Johnsons er að grípa til er að fella niður alla grímuskyldu, fella niður fjöldatakmarkanir sem snúa að fyrirtækjum, tónleikum og annars konar viðburðum, auk þess að gera eigendum alls konar fyrirtækja að opna á nýjan leik. Þar eru næturklúbbar meðtaldir.

Fólki verður ekki gert skylt að sýna bólusetningarvottorð í Englandi en forsvarsmönnum fyrirtækja verður heimilt að krefjast þeirra og setja eigin reglur að vild.

Í ræðu sinni og svörum við spurningum blaðamanna lagði Johnson reglulega áherslu á persónulega dómgreind fólks og að fólk tæki mið af aðstæðum í samfélaginu og þá sérstaklega útbreiðslu Covid-19.

Johnson tók fram í ræðu sinni að margir væru þeirrar skoðunar að ef eitthvað, þá ætti að grípa til frekari sóttvarnaaðgerða, frekar en að fella þær niður. Það væri hins vegar ekki hægt að gera það seinna. Ef það ætti að bíða væri kominn vetur og þá væri ekki hægt að opna allt.

„Við verðum að læra að lifa með vírusnum,“ sagði Johnson.


Tengdar fréttir

Vísindamenn uggandi yfir afléttingaráætlun stjórnvalda

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, mun í dag tilkynna um afléttingar á öllum sóttvarnaraðgerðum sem taka munu gildi 19. júlí næstkomandi. Vísindamenn hafa fordæmt fyrirætlanir stjórnvalda, þar sem kórónuveirufaraldurinn virðist vera í vexti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×