Erlent

Fleiri en 400.000 látist á Indlandi af völdum Covid-19

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kona skimuð við komuna á Dadar-lestarstöðina í Mumbai.
Kona skimuð við komuna á Dadar-lestarstöðina í Mumbai. epa/Divyakant Solanki

Fjöldi skráðra dauðsfalla af völdum Covid-19 á Indlandi er kominn yfir 400.000. Sérfræðingar segja þó allar líkur á því að tala látinna sé hærri, þar sem skráningum er verulega áfátt.

Indland er í þriðja sæti yfir þau ríki þar sem flestir hafa látist af völdum kórónuveirunnar, á eftir Bandaríkjunum og Brasilíu. Um 30 milljónir manna hafa greinst með SARS-CoV-2 í landinu.

Fjöldi tilfella sem greinast á dag er nú rétt undir 40.000 en var í kringum 400.000 í maí. Fækkunina má líklega rekja til harðra sóttvarnaaðgerða, meðal annars útgöngubanns.

Sérfærðingar óttast þó að þriðja bylgja sé að bresta á. Tilfellum fer fjölgandi í sex ríkjum og hafa vísindamenn verið sendir þangað til að meta stöðuna og fylgjast með bólusetningum á viðkomandi svæðum.

Bólusetningar hófust á Indlandi í janúar síðastliðnum en aðeins um 5 prósent þjóðarinnar hafa verið bólusett til þessa. Stjórnvöld stefna að því að ljúka bólusetningum fyrir árslok en hægaganginn má meðal annars rekja til skorts á bóluefnum og takmarkaðan vilja landsmanna til að þiggja bólusetningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×