Eftir frábæra riðlakeppni, þar sem Ítalir unnu alla sína leiki, lentu þeir í vandræðum gegn Austurríkismönnum í 16-liða úrslitum. Þar þurfti framlengingu til að knýja fram úrslit en Mancini segir sína menn hafa lært af þeim leik.
„Þetta var fyrsti útsláttarleikurinn, og þar af leiðandi sá erfiðasti. Hver áskorun styrkir mann ef maður viðheldur því sem maður tekur út úr henni. Við áttum í vandræðum, en áttum líka 26 skot. Það voru erfið augnablik en mér fannst við vinna verðskuldað. Það eru engir auðveldir leikir á þessu stigi.“
Mancini segir þá belgíska liðið vera á meðal þeirra bestu í heimi og hlakkar til verkefnisins.
„Við munum mæta besta leikmannahópi Evrópu, ásamt Frökkum, en Ítalir munu sækja til sigurs. Við berum mikla virðingu fyrir Belgum, en við munum spila okkar leik og sjá hvað setur. Ég hef mætt Roberto Martínez oft. Þeir eru kannski besta lið í heimi, þeir eiga stórkostlega leikmenn.“ segir Mancini.
Leikur Ítalíu og Belgíu hefst klukkan 19:00 á morgun og verður sýndur beint á Stöð 2 EM. Upphitun hefst klukkan 18:30.

EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 er einnig hægt að kaupa stakt á lækkuðu verði frá og með 24. júní á kr. 3.990.