Innlent

Tveir greindust með Covid-19 innanlands

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fólk streymir í bólusetningu þessa dagana. Nokkur þúsund eiga von á AstraZeneca sprautu í Laugardalshöll í dag, seinni sprautunni.
Fólk streymir í bólusetningu þessa dagana. Nokkur þúsund eiga von á AstraZeneca sprautu í Laugardalshöll í dag, seinni sprautunni. Vísir/Vilhelm

Tveir greindust með kórónuveiruna frá mánudegi til miðvikudags. Annar var utan sóttkvíar. Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Almannavarna, segir að búið sé að ná utan um smitið sem var utan sóttkvíar.

Fram hefur komið að hinn smitaði er leikmaður karlaliðs Fylkis í knattspyrnu. Liðsfélagar hans eru komnir í sóttkví og búið er að fresta næsta leik liðsins um helgina.

Eitt virkt smit greindist á þessum þremur dögum á landamærum og beðið er eftir niðurstöðu úr mótefnamælingu í tveimur tilfellum.

Tölulegar upplýsingar á Covid.is eru aðeins uppfærðar á mánudögum og fimmtudögum.

Í einangrun eru nú 24, en þeir voru 23 á mánudag. Í sóttkví eru 86, en voru 11 á mánudag. 1740 eru í skimunarsóttkví en voru 1823 á mánudag. Einn er nú á sjúkrahúsi vegna Covid-19, sami fjöldi og var í síðustu viku.

213.186 eru nú fullbólusettir hér á landi en voru 177.540 á mánudaginn. 72,2 prósent íbúa sextán ára og eldri eru bólusett og er bólusetning hafin hjá 15,7 prósent íbúa sextán ára og eldri.

Alls voru tekin 245 einkennasýni hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og Íslenskri erfðagreiningu í gær. Þá voru 2.595 sýni tekin á landamærunum eða í seinni landamæraskimun og 743 í svokallaðri sóttkvíar- og handahófsskimun.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×