Fótbolti

Mögulega heimskustu stuðningsmenn EM

Sindri Sverrisson skrifar
Þessir hressu stuðningsmenn Frakka mættu á leikinn við Ungverjaland í Búdapest, öfugt við sexmenningana sem flugu óvart til Búkarest.
Þessir hressu stuðningsmenn Frakka mættu á leikinn við Ungverjaland í Búdapest, öfugt við sexmenningana sem flugu óvart til Búkarest. Getty/Nick England

Sex stuðningsmenn Frakklands hlupu heldur betur á sig þegar þeir hugðust mæta á leik liðsins í riðlakeppninni á EM, gegn Ungverjalandi í Búdapest um helgina.

Í stað þess að ferðast til Búdapest, sem er höfuðborg Ungverjalands, flugu sexmenningarnir til Búkarest, höfuðborgar Rúmeníu.

Samkvæmt rúmenska miðlinum Jurnalul eru Frakkarnir sex vinnufélagar hjá upplýsingatæknifyrirtæki. Við komuna til Búkarest höfðu þeir ekki enn áttað sig á því að þeir væru í röngu landi. Þeir sáu gulklædda stuðningsmenn á flugvellinum og ákváðu að fylgja þeim eftir til að komast á leikvanginn, til að sjá heimsmeistaraliðið sitt spila.

Gulklæddu stuðningsmennirnir voru hins vegar auðvitað ekki stuðningsmenn Ungverjalands, eins og sexmenningarnir héldu, heldur stuðningsmenn Úkraínu sem voru staddir í Búkarest vegna leikja við Norður-Makedóníu og Austurríki.

„Okkur datt aldrei í hug að þetta væru Úkraínumenn,“ sagði einn Frakkanna við rúmenska miðilinn Jurnalul. „Ég sé núna að við hefðum ekki getað fattað það. Við kunnum ekki ungversku né heldur úkraínsku eða rússnesku. Þetta eru allt sömu útlendingarnir fyrir okkur,“ bætti hann við.

Þurfum að læra meira um Evrópu

Í stað þess að aka í tíu klukkustundir til að komast til Búdapest ákváðu Frakkarnir að njóta rúmenskrar menningar. Hver veit nema að þeir verði svo í Búkarest á mánudaginn þegar Frakkar mæta þar Svisslendingum í 16-liða úrslitum? Þegar þeir ræddu við Jurnalul var hins vegar ekki ljóst að Frakkar myndu spila í Búkarest í 16-liða úrslitunum.

„Það er eins og að við séum í myndinni Home Alone. Þetta er í fyrsta sinn sem að við ferðumst til þessa hluta Evrópu og ég verð að viðurkenna að fyrir mér þá var, þar til í dag, enginn munur á Búkarest og Búdapest. Við þurfum að læra meira um Evrópu,“ viðurkenndi einn sexmenninganna.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×