Þau sem eru fullbólusett gegn COVID-19 fá nú bólusetningarvottorð sem tekið verður gilt í öllum ríkjum Evrópusambandsins og EFTA frá og með fyrsta júlí.
Græni passinn verður einnig notaður til að staðfesta neikvæða niðurstöðu úr sýnatöku og fyrri sýkingu af COVID-19.
Útgáfa samevrópskra bólusetningarvottorða er liður í því að opna landamæri innan Evrópu. Ferðaþyrstir taka henni væntanlega fagnandi.
Á Græna passanum er svokallaður QR-kóði sem inniheldur allar mikilvægar upplýsingar um handhafa vottorðsins og því ætti hann að vera ófalsanlegur. Upplýsingar um handahafa eru einungis geymdar á vottorðinu sjálfu.
Fullbólusettir Íslendingar hafa haft aðgang að rafrænum bólusetningarvottorðum allt frá því að þeir allra fyrstu fengu seinni skammt bóluefnis í janúar síðastliðnum. Græni passinn leysir gömlu vottorðin nú af en sama fyrirkomulag verður á útgáfu hans og gömlu vottorðanna. Passinn verður aðgengilegur á vefsíðunni heilsuvera.is.
Græni passinn verður tekinn gildur hvort sem hann er í rafrænu formi eða einfaldlega útprentaður.