Fótbolti

Eriksen brosandi og þakklátur í nýrri kveðju

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christian Eriksen leit vel út á myndinni sem hann lét fylgja með kveðjunni.
Christian Eriksen leit vel út á myndinni sem hann lét fylgja með kveðjunni. Twitter/@DBUfodbold

Danski landsliðsmaðurinn Christian Eriksen er enn á sjúkrahúsi að jafna sig eftir að hafa verið lífgaður við á fótboltavellinum á laugardaginn var. Hann vildi þakka öllum fyrir stuðninginn og sendi frá sér mynd og kveðju á samfélagsmiðlum.

Christian Eriksen er þakklátur fyrir þann stuðning sem hann hefur fengið og sendi öllum kveðju í gegnum Twitter síðu danska knattspyrnusambandsins. Þar sést Eriksen brosandi og með þumalinn upp sem er hughreystandi fyrir alla þá sem höfðu áhyggjur af honum.

„Hæ allir. Ég vill þakka fyrir ánægjulegar og yndislegar kveðjur alls staðar að úr heiminun. Þær skipta miklu máli fyrir mig og fjölskyldu mína. Ég er góður miðað við aðstæður. Ég þarf að fara í gegnum frekari rannsóknir á sjúkrahúsinu en mér líður ágætlega. Núna mun ég hvetja strákana í danska landsliðinu í næstu leikjum. Spilið fyrir alla Danmörku. Bestu kveðjur Christian,“ segir í kveðjunni sem sjá má hér fyrir ofan.

Eriksen hafði áður sent liðsfélögum sínum myndband með kveðju. Pierre-Emile Hojbjerg, leikmaður danska landsliðsins, sagði frá myndbandinu þegar hann hitti blaðamenn. Eriksen tók upp kveðju þar sem hann hvatti liðsfélaga sína áfram og sagði þeim að einbeita sér að næsta leik á EM sem er á móti Belgum á fimmtudaginn.

Eriksen sagðist ekki muna mikið eftir því sem gerðist en hafði þeim mun meiri áhyggjur af því hvernig það var fyrir leikmenn danska landsliðsins að horfa upp á svona óhugnanlegan atburð.

UEFA pressaði danska liðið aftur á völlinn seinna um daginn þar sem Danir töpuðu 1-0 á móti Finnum.

Martin Schoots, umboðsmaður Eriksen, segir að leikmaðurinn sé að gangast undir ítarlegar rannsóknir.

„Við viljum öll átta okkur á því hvað gerðist fyrir hann og hann sjálfur auðvitað líka. Læknarnir eru að skoða hann mjög nákvæmlega og það tekur tíma,“ sagði Martin Schoots við Gazzetta dello Sport.

Schoots segir að fjöldi kveðja og skilaboða alls staðar að úr heiminum hafi hjálpað Eriksen.

„Hann var ánægður að vita af allri þessari ást í kringum hann. Hann fékk skilaboð alls staðar að úr heiminum. Hálfur heimurinn hefur haft samband og allir eru áhyggjufullir. Núna þarf hann bara að hvíla sig. Konan hans og foreldrar hans eru með honum. Hann vill samt hvetja liðsfélaga sína áfram í Belgíuleiknum,“ sagði Schoots.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×