Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðuneytis við fyrirspurn fréttastofu RÚV. Norðmenn gerðu hlé á bólusetningu með AstraZeneca bóluefninu í mars og lánuðu því Svíum og Íslendingum bóluefnaskammta. Bóluefnaskortur á efni AstraZeneca hefur valdið heilbrigðisyfirvöldum hér á landi nokkrum vandræðum en nú er áhersla lögð á að klára að bólusetja þá með efninu sem þegar hafa fengið fyrri skammt.
Tæplega sjö þúsund skammtar af bóluefni AstraZeneca eiga að koma hingað til lands í þessum mánuði. Framhald afhendingaráætlunar fyrirtækisins er þó óljós og engar upplýsingar liggja fyrir um framhald hennar.
Til stóð í maímánuði að fullbólusetja 51 þúsund Íslendinga með bóluefni AstraZeneca en þeim hefur fækkað nokkuð. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hefur sagt að þeim, sem ekki fái seinni sprautuna af AstraZeneca, verði boðið annað bóluefni í seinni sprautu og þá líklegast Pfizer.