Fótbolti

„Krefjandi tími og tekið mjög mikið á að vera ein úti“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexandra Jóhannsdóttir í bikarúrslitaleiknum sem Frankfurt tapaði á sárgrætilegan hátt.
Alexandra Jóhannsdóttir í bikarúrslitaleiknum sem Frankfurt tapaði á sárgrætilegan hátt. getty/Lars Baron

Landsliðskonan Alexandra Jóhannsdóttir segir að fyrsta árið í atvinnumennsku hafi verið krefjandi. Alexandra gekk í raðir þýska úrvalsdeildarliðsins Frankfurt í byrjun árs.

„Leikformið er ágætt en ég hef ekki spilað þær mínútur sem ég hefði viljað. En ég hef fengið mjög góðar æfingar úti í Þýskalandi og er í góðu formi,“ sagði Alexandra á blaðamannafundi KSÍ í gær.

„Þessi tími í Þýskalandi hefur verið mjög krefjandi og það hefur tekið mjög mikið á að vera ein úti.“

Hafnfirðingurinn kom við sögu í úrslitaleik þýsku bikarkeppninnar þar sem Frankfurt tapaði á grátlegan hátt fyrir Wolfsburg. Sigurmark Wolfsburg kom þegar tvær mínútur voru eftir af framlengingu.

„Ég fékk tæki­færi í bikar­úr­slita­leikn­um gegn Wolfs­burg og það var hrika­lega sorg­legt að ná ekki að vinna hann. Ég er mjög spennt fyr­ir kom­andi keppn­is­tíma­bili og stefni að sjálf­sögðu á að vinna mér inn fast sæti í liðinu,“ sagði hún.

Þótt Alexandra hafi ekki verið lengi í landsliðinu hafa nokkrir nýir leikmenn bæst í íslenska hópinn síðan hún byrjaði að spila með því. Alexandra hrósar yngstu leikmönnum landsliðsins.

„Þær hafa komið ótrúlega vel inn í þetta og betur inn í þetta en ég gerði á sínum tíma. Gæðin á æfingunum góð og það er mikil barátta um að komast í liðið,“ sagði Alexandra.

Ísland mætir Írlandi í tveimur vináttulandsleikjum á Laugardalsvelli 11. og 15. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×