Fótbolti

Talar voða fallega um íslenska landsliðið við Amöndu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ingibjörg Sigurðardóttir og stöllur hennar í íslenska landsliðinu mæta því írska í vináttulandsleikjum á föstudaginn og þriðjudaginn.
Ingibjörg Sigurðardóttir og stöllur hennar í íslenska landsliðinu mæta því írska í vináttulandsleikjum á föstudaginn og þriðjudaginn. vísir/bára

Ingibjörg Sigurðardóttir er samherji hinnar bráðefnilegu Amöndu Andradóttur hjá norska meistaraliðinu Vålerenga.

Á blaðamannafundi KSÍ í gær var Ingibjörg spurð út í Amöndu sem getur bæði spilað fyrir Noreg og Ísland. Hún var valin í norska U-19 ára landsliðið og mikið hefur verið rætt og ritað um hvort hún velur að spila fyrir Íslands hönd eða Noregs.

„Hún er frábær leikmaður og ótrúlega efnileg. En hún er bara sautján ára og mjög ung ennþá. Hún veit að hún þarf að vera þolinmóð og bíða eftir sínu tækifæri,“ sagði Ingibjörg.

„Hún stressar sig lítið á hlutunum og það er spennandi að sjá hvað hún gerir í framtíðinni.“

Ingibjörg var spurð að því hvort hún hefði reynt að sannfæra Amöndu um að velja íslenska landsliðið.

„Ég hef lítið rætt það en tala auðvitað voða fallega um íslenska landsliðið. En hún verður að velja sjálf,“ sagði Ingibjörg.

Framundan eru tveir vináttulandsleikir gegn Írlandi á Laugardalsvelli. Það eru fyrstu leikir Ingibjargar undir stjórn nýs landsliðsþjálfara, Þorsteins Halldórssonar.

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég er með nýjum þjálfara. Ég er að sjá hvað er nýtt og hvað er það sama. Við erum bara reyna að púsla öllu saman og ég að reyna að komast inn í allt,“ sagði Ingibjörg sem segir að hún þurfi alltaf að sanna sig fyrir nýjum þjálfara.

„Maður fær ekkert gef­ins í landsliðinu, þarf alltaf að sanna sig og vinna fyr­ir sínu sæti. Það er ekk­ert öðru­vísi hjá mér en öðrum leik­mönn­um liðsins. Við þurf­um að vinna fyr­ir okk­ar sæti,“ sagði Ingi­björg sem hefur leikið 35 landsleiki. Hún varð tvöfaldur meistari með Vålerenga á síðasta tímabili og var valin leikmaður ársins í Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×