Handbolti

KA/Þór stelpur gerðu það sem ekkert annað Íslandsmeistaralið hefur gert

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aldís Ásta Heimisdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir tóku báðar risaskref á þessu tímabili og eru komnar í hóp bestu handboltakvenna landsins.
Aldís Ásta Heimisdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir tóku báðar risaskref á þessu tímabili og eru komnar í hóp bestu handboltakvenna landsins. Vísir/Hulda Margrét

Fall var heldur betur fararheill fyrir leikmenn KA/Þórs í úrslitakeppni Olís deildar kvenna í handbolta.

KA/Þór tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri á Val á Hlíðarenda í gær. Þetta er fyrsti Íslandsmeistaratitill Akureyrar í kvennahandboltanum.

KA/Þór gerði líka það sem ekkert annað Íslandsmeistaralið hefur náð í sögu úrslitakeppni kvenna.

KA/Þór er nefnilega fyrsta Íslandsmeistaralið sögunnar sem verður Íslandsmeistari þrátt fyrir að hafa byrjað úrslitakeppnina á tapleik.

Karlaliðin hafa komið til baka eftir tap í fyrsta leik úrslitakeppninnar en ekki kvennaliðin. Valur (2017), Fram (2013) og Haukar (2009) eru þrjú dæmi um Íslandsmeistara karla sem byrjuðu úrslitakeppni á tapleik.

KA/Þór lék fyrsta leikinn í úrslitakeppninni í undanúrslitum því deildarmeistarnir sátu hjá í fyrstu umferðinni ásamt liðinu í öðru sæti sem var Fram.

KA/Þór kom inn í undanúrslitaeinvígið á móti ÍBV þar sem Eyjakonur höfðu slegið Stjörnuna út 2-0 í sex liða úrslitunum.

Fyrsti leikur undanúrslitaeinvígsins var á Akureyri 23. maí síðastliðinni og ÍBV liðið vann hann með einu marki, 27-26.

KA/Þór liðið var því upp við vegg í öðrum leiknum í Eyjum. Sigur hefði tryggt Eyjaliðinu sæti í lokaúrslitunum. KA/Þór vann þann leik með þremur mörkum, 24-21, og hafði síðan betur í framlengdum oddaleik fyrir norðan, 28-27.

KA/Þór vann síðan báða leikina í úrslitaeinvíginu á móti Val, 24-21 fyrir norðan í leik eitt og svo 25-23 á Hlíðarenda í gær.

Norðankonur enduðu þar með úrslitakeppnina og veturinn á því að vinna fjóra síðustu leikina. Á þessu tímabili urðu þær líka deildarmeistarar og meistarar meistaranna. Það var engin bikarkeppni og því unnu KA/Þór konur alla titlana sem voru í boði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×