Erlent

Pfizer gefur í og eykur bólu­efna­fram­boð í Evrópu

Eiður Þór Árnason skrifar
Ísland hefur samið um kaup á um 490 þúsund skömmtum af bóluefni Pfizer/BioNTech.
Ísland hefur samið um kaup á um 490 þúsund skömmtum af bóluefni Pfizer/BioNTech. Getty/Alvaro Calvo

Gert er ráð fyrir að framboð á bóluefni Pfizer/BioNTech gegn Covid-19 muni aukast verulega á EES-svæðinu með tilkomu framleiðsluaukningar í Belgíu. Lyfjastofnun Evrópu (EMA) gaf út í gær að hún hafi mælt með samþykkt nýrra framleiðslulína í bænum Puurs þar sem ein stærsta verksmiðja Pfizer er starfrækt.

Talið er að viðbótin muni strax hafa áhrif á aðgengi ríkja innan bóluefnasamstarfs Evrópusambandsins að bóluefninu en Ísland er þeirra á meðal. Frá þessu er greint á vef Lyfjastofnunar og vísað í tilkynningu EMA. 

Ekki liggur fyrir hvort framleiðsluaukningin skili sér í stærri skömmtum til Íslands á næstunni en fréttastofa hefur óskað eftir svörum frá heilbrigðisráðuneytinu.

Ísland hefur í heild samið um kaup á um 490 þúsund skömmtum af bóluefni Pfizer/BioNTech sem duga fyrir um 245 þúsund einstaklinga. Af þeim sem hafa fengið minnst einn skammt af bóluefni hafa flestir verið bólusettir með efni Pfizer/BioNTech eða hátt í 90 þúsund einstaklingar.

Samkvæmt fyrirliggjandi afhendingaráætlun er gert ráð fyrir 81.900 skömmtum af bóluefninu til landsins það sem eftir lifir júní. 


Tengdar fréttir

Sendu út 10 þúsund skyndi­boðanir í bólu­setningu

Það var heldur betur handagangur í öskjunni þegar fyrstu hópanir sem valdir voru af handahófi fengu lítinn fyrirvara til að koma sér í bólusetningu í Laugardalshöllinni í dag. Árgangar voru dregnir út úr fötu og þurfti að hafa hraðar hendur áður en bóluefnið fyrndist.

Börn mega nú fá Pfizer í Evrópu

Lyfjastofnun Evrópu hefur lagt blessun sína yfir notkun bóluefnis Pfizer og Biontech fyrir 12 ára og eldri. Þar með er orðið heimilt að nota efnið fyrir 12-15 ára í Evrópu.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×