Innlent

Nöfn dregin úr potti þegar forgangshópar hafa verið bólusettir

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Frá bólusetningu í Laugardalshöll.
Frá bólusetningu í Laugardalshöll. Vísir/Vilhelm

Um 13.300 manns verða bólusettir gegn Covid-19 í vikunni, með bóluefnum frá Pfizer, Moderna og Janssen. Þá eru 20.000 skammtar af bóluefninu frá Pfizer á leið til landsins og von á álíka stórum sendingum allar vikur í júní.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.

Fram kemur á vef Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu að á morgun verður seinni bólusetning með Pfizer og haldið áfram með forgangshópa. Sama verður uppi á teningnum á miðvikudag þegar bólusett verður með bóluefninu frá Moderna en á fimmtudag verða áhafnir og skólastarfsmenn bólusettir með bóluefninu frá Janssen.

Samkvæmt Morgunblaðinu er um að ræða 7.700 skammta frá Pfizer, 5.000 skammta frá Moderna og 600 skammta frá Janssen.

Þegar forgangshóparnir hafa verið kláraðir verður tekin upp handahófskennd boðun, þar sem nöfn verða bókstaflega dregin úr tveimur pottum, karlar og konur til skiptist.

„Það átti fyrst að fara að forrita kerfi en svo var svo mikið af verkefnum hjá forriturunum okkar. Þannig að við sáum að þetta yrði einfaldast. Þessi leið er nokkuð sanngjörn og við munum grípa til hennar þegar við sjáum hverngi mæting verður á þriðjudag,“ hefur Morgunblaðið eftir Ragnheiði Ósk Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá heilsugæslunni.

Hún segist gera ráð fyrir því að 1975-árgangurinn verði sá elsti í handahófskenndu boðuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×