Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir að annað smitið sem kom upp í gær utan sóttkvíar tengjast hópsmiti kringum HM verslunarkeðjuna.
„Það er alla vega annar af þessum sem greindist utan sóttkvíar í gær sem tengist hinu svokallaða HM smiti. Við vitum ekki enn með hinn, það er ekki komin raðgreining,“ segir hann.
14 smit hafa nú komið upp í vikunni og þar af tíu sem tengjast HM- hópsýkingunni en það afbrigði veirunnar greindist á landamærum.
„Það er hægt að rekja það smit til landamærasmits frá því í apríl. Við vitum ekki hvernig landamærasmitið barst út í samfélagið. Til að mynda gætu aðrir farþegar hafa smitast af einstaklingnum á leið til landsins en veiran greinst síðar hjá þeim,“ segir Þórólfur.
Þórólfur býst við fleiri smitum á næstunni en vonar að staðan verði áfram viðráðanleg . Hann hefur áhyggjur af næstu helgi þar sem mikið verður um útskriftarveislur og önnur hátíðarhöld.
Við höfum áhyggjur af því þegar margir koma saman því þá eykst hættan, líka ef fólk er að fara á milli hópa. Á móti kemur að sífellt fleiri eru bólusettir í samfélaginu,“ segir Þórólfur.