Fótbolti

Sautján smitast við að fagna titli Hjartar og félaga

Sindri Sverrisson skrifar
Gulklæddir stuðningsmenn Bröndby fjölmenntu til að fagna meistaratitlinum.
Gulklæddir stuðningsmenn Bröndby fjölmenntu til að fagna meistaratitlinum. Getty/Lars Ronbog

Dönsk heilbrigðisyfirvöld hafa greint frá því að sautján manns hafi greinst með kórónuveiruna eftir fagnaðarlætin á og við leikvang Bröndby í kjölfar þess að liðið varð Danmerkurmeistari.

Landsliðsmaðurinn Hjörtur Hermannsson lék fram í uppbótartíma í vörn Bröndby þegar liðið vann 2-0 sigur gegn Nordsjælland á mánudag. Þar með endaði Bröndby stigi fyrir ofan Midtjylland og tryggði sér danska meistaratitilinn.

Titlinum var að vonum vel fagnað en í hópi stuðningsmanna sem fögnuðu titlinum hafa nú 17 greinst með kórónuveirusmit. Einn hafði þegar greinst á þriðjudag og þá þegar hvöttu heilbrigðisyfirvöld til þess að þeir sem tóku þátt í fagnaðarlátunum færu í smitpróf.

Með sigrinum er Bröndby á leið í umspil um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Tapi liðið í umspilinu, þar sem Salzburg, Slavia Prag, Dinamo Zagreb og Olympiacos eru mögulegir andstæðingar, fer Bröndby í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Því eru dönsku meistararnir öruggir um hátt verðlaunafé úr sjóðum UEFA, vegna árangurs síns, eða að lágmarki 1,8 milljarð króna.

Hjörtur Hermannsson, í buxum með númerinu 6, fagnaði titlinum vel með félögum sínum.Getty/Lars Ronbog

Hjörtur er ekki kominn í sumarfrí því hann er í landsliðshópi Íslands sem mætir Mexíkó í Bandaríkjunum á sunnudagskvöld, Færeyjum 4. júní og Póllandi 8. júní, í vináttulandsleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×