Um­­fjöllun, við­töl og myndir: Valur - Breiða­blik 3-7 | Ó­­­­­trú­­­legur leikur á Hlíðar­enda

Andri Gíslason skrifar
Breiðablik vann ótrúlegan sigur á Hlíðarenda í kvöld.
Breiðablik vann ótrúlegan sigur á Hlíðarenda í kvöld. Vísir/Elín Björg

Breiðablik heimsótti Val á Origo-vellinum í 5.umferð Pepsi Max deildarinnar. Blikastúlkur fóru gjörsamlega á kostum og enduðu leikar 7-3.

Valsstúlkur voru betri fyrstu 5 mínúturnar sem skilaði sér í marki á 6.mínútu þegar Sigríður Lára Garðarsdóttir skallaði hornspyrnu Dóru Maríu Lárusdóttur í netið. Flott byrjun hjá Val en þær áttu ekki von á því sem koma skal.

Fimm mínútum síðar jöfnuðu Blikastúlkur metin þegar Agla María Albertsdóttir tók hornspyrnu fyrir markið þar sem Kristín Dís Árnadóttir mætti og skallaði boltann inn. Á 15.mínútu fengu Breiðablik aðra hornspyrnu sem Agla María tók og í þetta skiptið var það Tiffany Janea McCarty sem kom boltanum yfir línuna.

Á 19.mínútu leiksins fær Taylor Marie Ziemer boltann fyrir utan teig og bókstaflega neglir boltanum í netið framhjá Söndru í marki Vals sem kom engum vörnum við.

Úr leik kvöldsins.Vísir/Elín Björg
Úr leiknum í kvöld.Vísir/Elín Björg

Blikastúlkur voru ekki hættar og héldu áfram að sækja að marki Vals sem skilaði sér á 31.mínútu. Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir sem var besti maður vallarins í dag fékk þá boltann úti á hægri kanti og á fyrirgjöf sem fer í Mary Alice Vignola varnarmann Vals og endar í markinu. Staðan orðin 4-1 eftir hálftíma leik og aðeins eitt lið á vellinum.

Þannig var staðan þegar liðin gengu til búningsherbergja eftir þennan magnaða fyrri hálfleik.

Síðari hálfleikur var ekki nema 7 mínútna gamall þegar Karitas Tómasdóttir setti Öglu Maríu í gegn sem lék auðveldlega framhjá Mist í vörn Vals og setti svo boltann framhjá Söndru í markinu.

Á 60.mínútu var það Áslaug Munda sem átti enn eina fyrirgjöfina fyrir mark Vals og í þetta skiptið mætti Tiffany Janea á fjærstöngina og kom boltanum yfir línuna.

Blikastúlkur voru ekki hættar því fimm mínútum síðar fengu þær hornspyrnu. Upp úr henni náði Kristín Dís föstu skoti á markið sem Sandra ver út í teiginn. Karitas Tómasdóttir er fyrst að átta sig og hamrar boltanum í autt markið.

Valsstúlkur náðu að klóra í bakkann stuttu síðar þegar Elísa Viðarsdóttir á sprett upp kantinn og reynir fyrirgjöf. Boltinn hins vegar svífur yfir Telmu í marki Breiðabliks og endar í netinu.

Elín Metta í kvöld.Vísir/Elín Björg
Telma Ívarsdóttir, markvörður Breiðabliks.Vísir/Elín Björg

Elín Metta Jensen sem hafði ekki skorað á þessu íslandsmóti átti síðan síðasta mark leiksins þegar hún tekur frábært skot fyrir utan teig sem endar í stönginni og inn. Frábært fyrir Elínu að ná marki en lengra komust Valsstúlkur ekki.

7-3 enduðu leikar í skemmtilegum en stórfurðulegum leik og tel ég að fáir hafi átt von á þessari markaveislu í kvöld.

Blikar fagna einu af sjö mörkum sínum.Vísir/Elín Björg

Af hverju vann Breiðablik?

Blikar voru bara mun betri aðilinn í dag, þær nýttu færin sín mjög vel og virkuðu mjög ferskar við hliðina á döpru Valsliði.

Hverjar stóðu upp úr?

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir var frábær á hægri kanti Blikaliðsins í kvöld og réðu Valsstúlkur engan veginn við hana.

Agla María Albertsdóttir og Tiffany Janea McCarty fá einnig hrós fyrir sinn leik í kvöld.

Agla María átti frábæran leik í kvöld.Vísir/Elín Björg

Hvað gekk illa?

Valsstúlkum gekk mjög illa með hraða kantmenn Blikaliðsins. Hornspyrnur Blikaliðsins skilaði þeim þremur mörkum í dag sem er vissulega áhyggjuefni fyrir Pétur Pétursson þjálfara Vals.

Hvað gerist næst?

Bæði þessi lið eiga leik á laugardaginn næstkomandi. Breiðablik fær Keflavík í heimsókn á Kópavogsvöll en Valsstúlkur leggja leið sína á Sauðárkrók og mæta þar liði Tindastóls.

Vissum að öll smáatriði myndu skipta máli í dag

Vilhjálmur Kári Haraldsson, þjálfari Breiðabliks.vísir/Sigurjón

Vilhjálmur Kári Haraldsson, þjálfari Breiðabliks var virkilega sáttur með sigurinn á Val fyrr í kvöld.

„Þetta var mjög skrýtinn leikur. Það voru fullt af mörkum og fín skemmtun. Svolítið af skrýtnum mörkum og ég held að vindurinn hafi haft svolítil áhrif á það en ég er allaveganna bara mjög sáttur með 3 stig, það er ekki spurning.“

Blikar fengu mikið pláss á köntunum í dag og náðu þær að skapa sér fullt af færum sem Vilhjálmur var meðvitaður um fyrir leikinn.

„Við erum í rauninni með svolítið svipað upplegg sama hvaða leikur það er. Við ætluðum að nýta breiddina vel á vellinum. Við erum með öfluga kantmenn sem að skapa oft góðar stöður í einn á móti einum. Svo erum við bara að reyna að keyra á liðin þannig við erum ekki með eitthvað öðruvísi upplegg í þessum leik frekar en öðrum. Auðvitað vissum við að öll smáatriði myndu skipta máli í svona leik, þetta er náttúrulega baráttuleikur á móti öflugu liði en þetta tókst í dag. Þetta var mjög góður fyrri hálfleikur en þetta var aðeins erfiðara í seinni hálfleik. Við fengum á okkur tvö mörk sem við hefðum getað komið í veg fyrir en svona er þetta bara.“

Íslandsmótið hefur byrjað skemmtilega og telur Vilhjálmur að þetta verði mun öðruvísi mót en hefur verið áður.

„Ekki spurning. Ég held að flestir þjálfarnir hafi spáð því að þetta yrði öðruvísi deild. Þetta Blikalið er aðeins öðruvísi, það er að fá á sig fleiri mörk en við erum líka að skora fullt af mörkum. En þetta er bara öðruvísi deild, öðruvísi Blikalið og öðruvísi íslandsmót.“


Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira