Bólusetningin gekk afar vel í Laugardalshöll í dag þegar fréttastofa mætti á svæðið. Hjúkrunarfræðingar gengu fram eins og einn maður og sprautuðu bóluefni frá Pfizer í fólk.
Meðal þeirra sem mættu í dag var Alma Möller Landlæknir sem var að fá sína aðra sprautu.
Aðspurð um hvernig væri að vera bráðum fullbólusett sagði Alma.
„Maður verður miklu öruggari með sig. Það tekur auðvitað tíma að fá fulla virkni en ég hlakka mikið til og finnst þetta mikill hátíðisdagur,“ segir Alma.
Alma segist ekki búin að panta sér flugfar til útlanda.
„Ég er hæstánægð með að geta ferðast innanlands í sumar þannig að ég ætla að byrja á því,“ segir hún.
Hún er ánægð með hvernig bólusetningarnar ganga.
„Það gengur ótrúlega vel. Heilsugæslan á svo sannarlega hrós skilið fyrir skipulagið,“ segir hún.
Alma segist hafa fengið smá vöðvaverki eftir síðustu bólusetningu og er við öllu búin í dag.
„Ég hef ekki tök á að taka daginn frá en er með svona hitalækkandi í töskunni minni,“ segir Alma brosandi að lokum.