Erlent

Sjá fram á að þurfa að farga milljónum bóluefnaskammta

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Íbúar Hong Kong hafa verið hægir til þess að taka við sér varðandi bólusetningar.
Íbúar Hong Kong hafa verið hægir til þess að taka við sér varðandi bólusetningar. epa/Jerome Favre

Yfirvöld í Hong Kong gætu neyðst til að farga milljónum skammta af bóluefnum gegn Covid-19 þar sem illa gengur að fá íbúa til að þiggja bólusetningu. 

Stjórnvöld hafa keypt nógu marga skammta til að bólusetja alla 7,5 milljón íbúa borgarinnar en aðeins 2,1 milljón skammtar hafa verið notaðir frá því að bólusetningar hófust í lok febrúar.

Notast er við tvö bóluefni; frá Pfizer og kínverska framleiðandanum Sinovac. Thomas Tsang, sem tilheyrir verkefnastjórn bólusetninga í Hong Kong, segir fyrsta skammtinn af bóluefninu frá Pfizer renna út eftir um þrjá mánuði.

Hann harmar það að Hong Kong sitji uppi með fjölda skammta á meðan önnur ríki búi við skort.

Sérfræðingar rekja tregðuna til að þiggja bólusetningu til vantrausts í garð stjórnvalda í Hong Kong og Kína, upplýsingaóreiðu og skorts á hvatningu frá yfirvöldum.

Samkvæmt opinberum tölum hafa 19 prósent íbúa Hong Kong fengið fyrsta skammt af bóluefnunum og 13,8 prósent eru fullbólusettir.

Stjórnendur hótela í borginni eru sagðir hafa boðið starfsmönnum bónusa ef þeir láta bólusetja sig en yfirvöld hafa hafnað því að grípa til áþekkra aðgerða. Þau segja árangur bólusetningarátaksins hins vegar munu ráða úrslitum um ferðalög milli Hong Kong og meginlandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×