Fótbolti

Hræðist það ef Hjörtur og félagar verða meistarar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hjörtur og félagar fagna marki fyrr á tímabilinu.
Hjörtur og félagar fagna marki fyrr á tímabilinu. Lars Ronbog/Getty

Brøndby getur orðið danskur meistari í fyrsta sinn í sextán ár. Verði það raunin mun allt verða vitlaust í vesturhluta Kaupmannahafnar klukkan rúmlega fimm, að íslenskum tíma í dag.

Brøndby er með einu stigi meira en FC Midtjylland fyrir lokaumferðina. Brøndby mætir FC Nordsjælland í síðustu umferðinni á meðan Midtjylland mætir Jóni Degi Þorsteinssyni og félögum í AGF.

Stuðningsmenn Brøndby hafa beðið ansi lengi eftir titlinum og má nánast líkja þessu við bið Liverpool eftir Englandsmeistaratitlinum en stuðningsmennirnir eru orðnir ansi spenntir.

Lokaumferðin fer fram klukkan 15.00 að íslenskum tíma í dag en það eru ekki allir sem eru svo spenntir fyrir sigri Brøndby í deildinni. Þar á meðal er Allan Randrup Thomsen, veirufræðingur hjá Kaupmannahafnarháskóla.

„Það er klárt að ég hugsa um að þetta gæti orðið ofursmit-viðburður. Þrátt fyrir að við séum á góðum stað þá erum við enn viðkvæm. Við getum bara kíkt yfir til Svíþjóðar til að sjá hvernig þeir eru að berjast á hótelunum,“ sagði Allan.

Hann bætir því við að hann vonist til þess að stuðningsmenn Brøndby safnist ekki saman fyrir utan völlinn á morgun, takist þeim að vinna titilinn, en rúmlega tíu þúsund manns verða á vellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×