La Liga færði leiki lokaumferðarinnar til í þriðja sinn á hálfum sólarhring og að þessu sinni voru ástæðurnar Eurovision söngvakeppnin á laugardalskvöldið og komandi úrslitaleikur Evrópudeildarinnar í næstu viku.
Atletico Madrid og Real Madrid geta bæði orðið spænskur meistari um helgina en Barcelona á ekki lengur möguleika á titlinum eftir tap um helgina.
Atletico Madrid er með tveggja stiga forystu og nægir sigur á Real Valladolid á útivelli til að tryggja sér titilinn. Real Madrid þarf að vinna Villarreal á heimavelli og treysta á það að Atletico tapi stigum.
Changes to kick-off times for MD38.
— LaLiga English (@LaLigaEN) May 17, 2021
The final Matchday of #LaLigaSantander 2020/21 will be played on the following dates. pic.twitter.com/anGSOzACyK
Þessir tveir leikir áttu fyrst að fara fram á sunnudagskvöldið en Villarreal mótmælti því af því að liðið er að fara að spila til úrslita um Evrópudeildarbikarinn á móti Manchester United á miðvikudagskvöldið í næstu viku.
Leikirnir voru því færðir á laugardagskvöldið en það þurfti síðan að flýta þeim svo þeir væru ekki á sama tíma og Eurovision söngvakeppnin.
Nú er því ljóst að leikir toppliðanna fara nú fram klukkan 18.00 að staðartíma á laugardaginn en söngvakeppnin hefst síðan þremur klukkutímum seinna.
Villarreal fær því auka sólarhring til að undirbúa sig fyrir úrslitaleikinn á móti Manchester United.
Leikir verða báðir í beinni á stöðvum Stöð 2 Sport og hefst útsendingin klukkan 15.55 að íslenskum tíma.