Sport

Rökkvi og Ari fyrstu Íslendingarnir til að tryggja sig inn á heimsleikana í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rökkvi Hrafn Guðnason og Ari Tómas eru fyrstu Íslendingarnir sem tryggja sig inn á heimsleikana í CrossFit í ár.
Rökkvi Hrafn Guðnason og Ari Tómas eru fyrstu Íslendingarnir sem tryggja sig inn á heimsleikana í CrossFit í ár. Instagram/@crossfitreykjavik

Rökkvi Hrafn Guðnason og Ari Tómas tryggðu sér um helgina farseðla á heimsleikana í CrossFit í haust með góðum árangri sínum í undankeppni aldursflokkanna.

Rökkvi Hrafn var einkar öflugur en hann endaði í öðru sæti í undankeppni sextán og sautján ára en tuttugu efstu tryggðu sig inn á heimsleikana í ágúst.

Rökkvi Hrafn Guðnason er hjá CrossFit Reykjavík en hann er á yngra ári í sínum flokki. Rökkvi fékk 37 stig þegar markmiðið er að vera með sem fæst stig. Hann tryggði sér annað sætið mjög örugglega.

Bandaríski strákurinn Nate Ackermann var með nokkra yfirburði í keppninni en hann fékk 10 stig. Hann vann þrjár af fimm greinum og varð í þriðja og fjórða sæti í hinum tveimur. Nate er sautján ára og því einu ári eldri en Rökkvi Hrafn.

Þriðji á eftir þessum yfirburðamönnum voru Ísraelsmaðurinn Omri Meller með 73 stig og Bandaríkjamaðurinn Alexander Blazo með 74 stig.

Rökkvi Hrafn varð í öðru sæti í fyrstu þremur og í þriðja sætið í þeirri síðustu. Inn á milli endaði hann tvisvar í ellefta sæti og einu sinni í tíunda sæti.

Ari Tómas komst líka áfram á heimsleikana þegar hann náði í nítjánda sæti í flokki fjórtán til fimmtán ára. Ari er fimmtán ára og úr CrossFit Reykjavík.

Alls tóku sjö íslenskir unglinga þátt í þessari undankeppni. Bjarni Leifsson varð í 79. sæti í 16 til 17 ára og Tindur Elíasson varð í 122. sæti í sama flokki.

Bergrós Björnsdóttir varð í 28. sæti í flokki 14 til 15 ára stúlkna en þar endaði Elísa Mist Benediktsdóttir í 48. sæti og Tinna María Stefnisdóttir varð í 69. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×