Innlent

Fjórðungur þjóðarinnar hálfbólusettur

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bólusett í Laugardalshöll.
Bólusett í Laugardalshöll. Vísir/Vilhelm

Fjórðungur Íslendinga 16 ára og eldri hefur fengið einn skammt af bóluefni gegn Covid-19 en 12,3 prósent hafa verið fullbólusettir. Um 2,1 prósent hafa fengið Covid-19 og/eða er með mótefni fyrir SARS-CoV-2.

Þetta kemur fram í uppfærðum upplýsingum á covid.is.

Um 10 þúsund manns verða bólusettir með bóluefninu frá Pfizer í dag en um er að ræða einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma. Boðað er í bólusetningu útfrá sjúkra- og lyfjasögu.

Á morgun verða 6 þúsund bólusettir með bóluefninu frá Janssen. Í þeim hóp verða leik- og grunnskólakennarar og einstaklingar sem eiga erfitt með að mæta í tvær bólusetningar, til dæmis flug- og skipaáhafnir. 

Líkt og fram hefur komið krefst bólusetning með efninu frá Janssen aðeins eins skammtar.

Á fimmtudaginn verða 10 þúsund síðan bólusettir með bóluefninu frá AstraZeneca en þá verður bólusett eftir aldri og stefnt að því að komast niður í aldurshópinn 55 ára.

Á föstudag fá 2.500 manns seinni skammtin af bóluefninu frá Moderna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×