Fyrr í mánuðinum ákvað Þórólfur að þiggja ekki bólusetningu sem læknir, þar sem hann væri ekki að hitta sjúklinga. Nú er komið að honum vegna aldurs hans en Þórolfur er fæddur árið 1953.
Klappað var fyrir Þórólfi þegar hann gekk í salinn í Laugardalshöllinni en Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, segir stemninguna hafa verið eins og landsliðið hafi verið að ganga á völl.
Vonast er til þess að bólusetja níu þúsund manns í dag og alls 25 þúsund manns í vikunni.

Borið hefur á því að fólk hafi afþakkað bóluefni AstraZeneca en bóluefnið hefur verið tengt við afar sjaldgæf blóðsega og blæðingavandamál. Fólk eldra en sextíu ára fær bóluefnið en ekki konur undir 55 ára. Þórólfur segir að búið sé að velja út þann hóp sem sé í eins lítilli áhættu og mögulegt er.
„Ég tel að bóluefnið sé öruggt og mjög virkt,“ sagði Þórólfur í samtali við fréttastofu á mánudaginn.