Steinsteypa er mest framleidda samsetta efni í heiminum og því er kolefnisspor hennar hátt. Í raun er steinsteypa samt frekar umhverfisvænt efni þar sem um 90% af rúmmáli hennar eru sandur, steinn, vatn og loft. Aðeins um 8-12% af steypunni er sement.
Kolefnisspor sements kemur aðallega frá því að kalksteini (CaCO3) er sundrað í kalsíumoxíð (CaO) sem er um 60% af sementinu, og koltvísýring (CO2) sem er gróðurhúsalofttegund. Það er ör þróun í þá átt að gera sement umhverfisvænna og það hefur leitt til þess að steinsteypa á Íslandi hefur allt að fjórðungi lægra kolefnisspor í dag en um aldamótin.
Í fyrirlestrinum verður farið yfir hvernig þróa megi steinsteypu á næsta áratug, þannig að hún verði með vistvænustu byggingarefnum sem Íslendingar eigi kost á.