Íslenski boltinn

Áflog eftir leik í Mjólkurbikarnum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki.
Myndin tengist fréttinni ekki. vísir/vilhelm

Það var hiti í mönnum eftir leik Úlfana og Ísbjarnarins í fyrstu umferð Mjólkurbikarsins en leikið var í Safamýrinni.

Leikur liðanna fór fram á föstudag en Úlfarnir unnu 2-0 sigur. Það var svo eftir leikinn sem allt sauð upp úr, virðist vera.

Fjallað var um atvikið í þættinum Innkastið x Ástríðan á Fótbolti.net en í hlaðvarpsþættinum var farið yfir 1. umferð Mjólkurbikarsins.

„Ég forvitnaðist aðeins um þetta og heyrði i mönnum í Safamýrinni. Það sem gekk þarna á er eitthvað sem maður er leiður að heyra. Það urðu einhver orðaskipti milli leikmanns Úlfanna og leikmanns í Ísbirninum í lok leiks,“ sagði Sverrir Mar Smárason, einn þáttarstjórnandanna.

„Á leiðinni inn í klefa standa bara fjórar til fimm frá Ísbirninum við klefann og bíða eftir leikmanni Úlfanna. Hann fær nokkur hnefahögg í höfuðið og lögreglan er kölluð til.“

Úlfarnir unnu 2-0 sigur og eru komnir áfram í næstu umferð Mjólkurbikars karla á meðan Ísbjörninn situr eftir með sárt ennið.

„Allir leikmenn sem sáu þetta voru teknir í skýrslutöku. Leikmaður Úlfanna fór á sjúkrahús og fékk áverkavottorð. Ég veit ekki betur en að þetta sé komið í ferli hjá lögreglunni,“ sagði Sverrir áður en Ingólfur Sigurðsson tók við.

„Þetta er glatað að heyra.“

Ísbjörninn gaf síðan í gær út yfirlýsingu þar sem þeir sögðu frásögnina storlega ýkta. Þeir sögðu einnig málið í rannsókn hjá lögreglu og ekki yrði farið nánar út í atburðarrásina.

„Framangreint er stórlega ýkt. Þessi frásögn er byggð á upplýsingum sem viðmælandi útvarpsþáttarins segist hafi fengið frá „sínum mönnum“ í Safamýrinni. Hér er um einhliða frásögn að ræða frá manni sem virðist tengjast leikmönnum Úlfanna vinaböndum. Það voru fleiri vitni að framangreindu, sem hafa gefið skýrslu til lögreglu, sem staðfesta aðra atburðarrás,“ segir í yfirlýsingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×