Handbolti

Kiddi Björgúlfs: Við klikkum alltaf á dauðafærunum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kristinn Björgúlfsson var ánægður með sína menn þrátt fyrir tap.
Kristinn Björgúlfsson var ánægður með sína menn þrátt fyrir tap. VÍSIR/VILHELM

Kristinn Björgúlfsson var stoltur af sínu liði þrátt fyrir 28-23 tap gegn Selfoss í Hleðsluhöllinni í dag. ÍR er enn í leit að sínum fyrstu stigum.

„Það er aldrei gaman að tapa,“ sagði Kristinn eftir leikinn í dag. „Þetta hefur kannski verið svona okkar verkefni í ár, en heilt yfir er ég ánægðu með stákana.“

ÍR lenti snemma undir í leiknum, en náðu að vinna það upp og jafna leikinn um miðbik fyrri hálfleiks. Eftir það voru þeir skrefi á eftir og Kristinn segir að sínir menn verði að nýta færin betur ef þeir ætla sér að vinna leiki.

„Það er bara gömul saga og ný að við klikkum alltaf á dauðafærunum þegar við getum jafnað eða komist yfir. Þetta liggur alltaf í dauðafærunum því miður, og það er dýrt fyrir okkur að klikka á dauðafærunum.“

Olís-deildin var að hefjast aftur eftir enn eina pásuna, og Kristinn segir að leikmennirnir finni mikið fyrir þessum stoppum.

„Þetta er erfitt og það er erfitt að vera í þeirri stöðu sem við erum í. Við erum búnir að tapa núna 16 í röð, en strákarnir mega eiga það að það er ótrúlegt hvað þeir eru ferskir og flottir á æfingum og hvað þeir nenna að leggja á sig því að þetta er ekki skemmtilegt.“

ÍR-ingar fá Gróttu í heimsókn á föstudaginn og Kristinn er bjartsýnn á að ná í sín fyrstu stig þar.

„Ég er alltaf bjartsýnn á að ná í stig og við förum í hvern einasta leik til þess að reyna að vinna. Það breytist ekkert þó það heiti Grótta, Haukar eða Selfoss.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×