Launahækkanir frá því í fyrra og launakostnaður vegna styttingar vinnuvikunnar, sem kemur til framkvæmda 1. maí, gætu keyrt hjúkrunarheimili hratt í þrot. Engin svör fáist frá stjórnvöldum um hvernig standa eigi straum af þessum kostnaði. Tíminn sé þegar útrunninn. Sum hjúkrunarheimili hafi þegar þurft að grípa til uppsagna og önnur þurfi mögulega að gera það.
„Ég sé ekki alveg hvernig við eigum að gera þetta, við erum í hálfgerðri spennutreyju með þetta því ef það er undirmannað kemur það niður á heilsu starfsfólks og auknum veikindastundum til dæmis og getur líka stefnt öryggi íbúa í hættu, þannig að við erum kolfallin á tíma með þetta,“ segir Halla Thoroddsen, framkvæmdastjóri Sóltúns öldrunarþjónustu.
„Það er mjög áríðandi að þessar leiðréttingar gerist hratt. Við erum kolfallin á tíma, þetta er að fara að dembast yfir okkur frá og með 1. maí, þessi nýju vaktaplön og skipulag og stytting vinnuvikunnar hjá okkar fólki og við erum bara runnin út á tíma með þetta.“
Hvenær þurfið þið í síðasta lagi að fá þetta á hreint?
„Í gær. Eða í janúar, þið vitið. Við þurfum að gefa út vaktaplön nokkrar vikur fyrir tímann. Þannig að við erum föst núna í maí, júní, júlí með þessi vaktaplön þannig að við getum lent í miklu tjóni.“