Erlent

Pfizer flýtir afhendingu bóluefna til Evrópu

Samúel Karl Ólason skrifar
250 milljónir skammta bóluefnis Pfizer eiga að berast til Evrópusambandsins fyrir lok júní.
250 milljónir skammta bóluefnis Pfizer eiga að berast til Evrópusambandsins fyrir lok júní. EPA/Christophe Ena

Lyfjafyrirtækin Pfizer og BioNTech ætla að senda Evrópusambandinu 50 milljónir fleiri skammta af bóluefni fyrirtækjanna á þessum ársfjórðungi en áður stóð til. Það er til viðbótar við þá 200 milljónir skammta sem ESB býst við að fá fyrir lok júnímánaðar.

Skammtarnir verða því 250 milljónir á öðrum ársfjórðungi. Þessir fimmtíu skammtar sem hafa bæst við, áttu upprunalega að berast á fjórða ársfjórðungi ársins.

Á fyrsta ársfjórðungi bárust 66 milljónir skammta bóluefnis Pfizer til Evrópusambandsins.

Ísland tekur þátt í samstarfi Evrópuþjóða um bóluefnakaup og er þeim útdeilt hlutfallslega miðað við íbúafjölda til ríkja.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, tilkynnti þessar vendingar í yfirlýsingu í dag. Þar sagði hún einnig að búið væri að bólusetja 27 milljónir Evrópubúa að fullu.

Eins og fram kemur í frétt Bloomberg gætu nýju skammtarnir komið til móts við þær tafir sem hafa orðið á notkun bóluefna AstraZenecea og Janssen (Johnson & Johnson) , vegna mögulegra fylgikvilla.

Dreifingu bóluefnis Janssen í Evrópu hefur verið frestað. Framkvæmdastjórn ESB tilkynnti í morgun að ekki stæði til að framlengja samninga við fyrirtækin og þess í stað yrði áhersla lögð á kaupa á mRNA-bóluefnum Pfizer og Moderna.


Tengdar fréttir

Fleiri bólusettir í dag en búist var við

Fleiri komust að í bólusetningum í dag en gert var ráð fyrir eða hátt í sex þúsund manns. Stefnt er að því að klára að bólusetja alla eldri en sextíu og fimm ára með undirliggjandi sjúkdóma í næstu viku og hefja þá bólusetningu fólks í þeim hópi sem er yngra en sextíu og fjögurra ára.

Fresta bólusetningu með bóluefni Janssen

Þórólfur Guðnason segir að beðið verði með bólusetningar með bóluefni Janssen þar til betri upplýsingar liggja fyrir um mögulegar aukaverkanir.

Faraldurinn nær nýjum hæðum á Indlandi og 184 þúsund greinast smituð

Fjöldi þeirra sem smitast hafa af nýju kórónuveirunni á Indlandi nær nýjum hæðum daglega og er verið að grípa til strangra sóttvarnaaðgerða víða um landið. Samhliða því að milljónir skammta af bóluefnum eru framleiddir í landinu berast fregnir af skorti á bóluefnum og tæplega átta af hverjum hundrað hafa verið bólusettir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×