Erlent

Fresta dreifingu á bólu­efni Jans­sen í Evrópu

Atli Ísleifsson skrifar
Von er á fyrstu sendingu af Janssen-bóluefninu til Íslands í fyrramálið.
Von er á fyrstu sendingu af Janssen-bóluefninu til Íslands í fyrramálið. EPA

Bandaríska lyfjafyrirtækið Johnson & Johnson hefur ákveðið að fresta dreifingu á Janssen-bóluefninu í Evrópu. Þetta er gert í kjölfar ákvörðunar Matvæla- og lyfjastofnunar Bandaríkjanna að stöðva tímabundið notkun bóluefnisins líkt og sagt var frá í morgun.

Bandarískir fjölmiðlar greindu frá því í morgun að minnst sex konur á aldrinum átján til 48 ára hafi fengið blóðtappa innan við tveimur vikum eftir bólusetningu með bóluefninu Janssen. Ein þeirra sé látin og ein á sjúkrahúsi og er ástand hennar sagt alvarlegt.

Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica sem sér um dreifingu bóluefna hérlendis, segir í samtali við Vísi að fyrsta sendingin með bóluefni Janssen sé þegar lögð af stað til landsins og væntanleg í fyrramálið. Er um að ræða 2.400 skammta.

Distica hafi enn sem komið er ekkert heyrt frá Johnson & Johnson um það að til standi að fresta drefingu efnisins. „Það á þá kannski við næstu sendingu sem væntanleg er hingað til lands.“

Samkvæmt áætlun var svo von á 2.400 skömmtum til viðbótar af bóluefni Janssen 26. apríl næstkomandi.

Í tilkynningu frá Johnson & Johnson segir að alls hafi 6,8 milljónir skammta verið gefnir í Bandaríkjunum. Öryggi og heill notenda vara fyrirtækisins sé hins vegar forgangsatriði og því hafi fyrirtækið nú tekið ákvörðun um að fresta dreifingu efnisins í Evrópu.

Aðeins þarf einn skammt af bóluefni Janssen til að veita vörn gegn Covid-19 sem er ólíkt því sem á við um önnur bóluefni sem komin eru á markað.


Tengdar fréttir

Þúsundir skammta af bólu­efni til landsins í vikunni

Á þriðja þúsund skammta af bóluefni Janssen eru væntanlegir hingað til lands á miðvikudaginn. Eru þetta fyrstu skammtar bóluefnisins sem sendir eru hingað til lands en um er að ræða eina bóluefnið við kórónuveirunni sem tekið hefur verið í notkun og er gefið í einni sprautu.

Stöðva notkun bóluefnis Johnson & Johnson tímabundið

Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum ætla að kalla eftir því að hlé verði gert á notkun bóluefnis Johnsons & Johnson vegna blóðtappatilfella sem hafa greinst. Alríkið mun hætta notkun bóluefnisins um tíma og einstök ríki hvött til þess að gera hið sama.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×