Golf

Matsuyama fékk kveðju frá Tiger: „Þessi sögulegi sigur mun hafa áhrif á allan golfheiminn“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hideki Matsuyama í græna jakkanum.
Hideki Matsuyama í græna jakkanum. getty/Jared C. Tilton

Hideki Matsuyama fékk fjölmargar kveðjur eftir sigurinn á Masters-mótinu í gær, meðal annars frá Tiger Woods og forsætisráðherra Japans.

Matsuyama lék samtals á tíu höggum undir pari og var einu höggi á undan Bandaríkjamannnum Will Zalatoris. Þetta var fyrsti sigur Matsuyamas á risamóti og hann er fyrsti japanski karlinn sem vinnur risamót.

„Þú gerir Japani stolta,“ skrifaði Tiger á Twitter eftir Masters í gær. „Til hamingju með þetta merka afrek fyrir þig og landið þitt. Þessi sögulegi sigur mun hafa áhrif á allan golfheiminn.“

Matsuyama er mikil hetja í heimalandinu og fékk góða kveðju frá forsætisráðherra Japans, Yoshihide Suga.

„Þetta var yndislegt. Þegar kórónuveirufaraldurinn geysar áfram hreyfði afrek hans við okkur og gaf okkur hugrekki,“ sagði Suga.

„Þetta snýst ekki bara um að vinna. Þetta er fyrsti Asíubúinn sem vinnur Masters. Þetta er stórkostlegt afrek.“

Matsuyama fékk einnig góðar kveðjur frá ýmsum þekktum kylfingum, meðal annars Gullbirninum sjálfum, Jack Nicklaus, sem vann Masters sex sinnum á sínum tíma.

„Ég er ekki bara ánægður fyrir hönd Hideki heldur einnig fyrir hönd golfsins í Japan,“ skrifaði Nicklaus á Twitter.


Öll stærstu golfmótin eru á Stöð 2 Golf en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Stöð 2 Golf kostar 3.990 krónur á mánuði en er einnig hluti af Sportpakkanum. Helgarpassa að Stöð 2 Golf má kaupa á kerfum Vodafone.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×