Fótbolti

Fyrrum þjálfari Dana: Hjul­mand á að fá heiðurinn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hjulmand fagnar eftir 4-0 sigurinn á Austurríki.
Hjulmand fagnar eftir 4-0 sigurinn á Austurríki. Christian Hofer/Getty Images

Åge Hareide, fyrrum þjálfari danska landsliðsins í fótbolta, segir að Kasper Hjulmand, núverandi þjálfari liðsins, eigi að fá allan heiðurinn á gengi liðsins um þessar mundir.

Hinn norski Hareide þjálfaði danska liðið frá 2016 til 2020 og átti að stýra liðinu á EM 2020 en eftir því var frestað um eitt ár, þá var ákveðið að hann myndi hætta og Kasper Hjulmand tók við liðinu.

Danska liðið fór á kostum í marsglugganum. Liðið vann alla þrjá leiki sína með markatölunni 14-0 og það gleður hinn norska, sem nú stýrir Rosenborg.

„Þetta er dálítið gaman fyrir mig því þetta er nánast sömu leikmenn og ég notaði. Þetta gerir það enn áhugaverðara fyrir mig að fylgjast með,“ sagði Hareide í samtali við VG og hélt áfram.

„Hjulmand hefur bætt liðið og fengið leikmenn eins og Andreas Skov Olsen inn. Þeir eru beittari fram á við og hvernig þeir pressa virkar mjög vel. Það er afleiðing af því að þeir hafa spilað marga leiki saman.“

„Þegar ég byrjaði þá var aðeins skipt út frá Moten Olsen. Ég hélt svipuðum kjarna í fjögur ár og ég held að það hafi verið mjög mikilvægt fyrir landsliðið.“

Hareide segir að hann taki engan heiður af gengi liðsins, þrátt fyrir að byggt upp þetta lið sem Hjulmand hefur svo gengið á lagið með.

„Hjulmand verður að fá mikið hrós fyrir það sem hann hefur gert með liðið. Ég setti saman lið og Hjulmand hefur svo haldið áfram að byggja á því. Það er hann sem á að fá heiðurinn,“ sagði Hareide sem sagði að danska liðið ætti að stefna hátt á EM í sumar.

„Ég sagði að við vildum ná í undanúrslit. Við sáum að þetta gæti orðið gott mót. Þeir ættu að stefna á það og svo getur allt gerst.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×