Fjöldi Evrópuríkja, þar á meðal Ísland, hætti notkun bóluefnis AstraZeneca tímabundið vegna tilkynninga um sjaldgæfa tegund blóðtappa. Í Þýskalandi hefur verið tilkynnt um 31 slíkt tilfelli hjá þeim hátt í 2,7 milljónum manna sem hafa fengið bóluefnið, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Nær öll tilfellin hafa greinst í yngri og miðaldra konum.
Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands, og heilbrigðisráðherrar þýsku sambandslandanna sextán, ákváðu að hætta notkun bóluefnisins fyrir fólk yngra en sextugt á neyðarfundi í dag. Ákvörðunin var að tillögu bóluefnanefndar Þýskalands.
Í Kanada hefur notkun efnisins einnig verið takmörkuð við fólk sem er eldra en 55 ára og í Frakklandi sömuleiðis.
Þrátt fyrir það segja lyfjastofnanir Evrópu og Bretlands að ávinningur bóluefnis AstraZeneca vegi mun þyngra en möguleg áhætta við það.