Tónlist

Auður og Floni gefa út fjögur ný lög saman á föstudag

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Auður og Floni gefa út EP plötuna Venus á föstudag. Auður hefur tekið út allar myndir af Instagramminu sínu og þessi kynningarmynd situr ein eftir.
Auður og Floni gefa út EP plötuna Venus á föstudag. Auður hefur tekið út allar myndir af Instagramminu sínu og þessi kynningarmynd situr ein eftir. Instagram/Auður

Á föstudag kemur út stuttskífan Venus, sem er sköpunarverk tónlistarmannanna Flona og Auðar. Ferlið byrjaði með laginu Týnd og einmana, sem nýlega var tilnefnt á íslensku tónlistarverðlaununum í flokknum rapp og hiphop lag ársins.

Auk lagsins Týnd og einmanna bætast við fjögur ný lög á þessari stuttskífu. Þau kallast Að morgni, Andartak, Ástin handan við og það síðasta heitir Ég skal kyssa örin þín.

„Venus samtvinnar sögur Auðar og Flona, rannsakar líðan þeirra, segir frá ástarævintýrum og gefur hlustanda tækifæri til þess að heyra hvernig þeir vinna saman og draga fram það besta í hvorum öðrum. Venus er einstakt tónverk að því leiti að hér mætast tveir ólíkir tónlistarstílar Auðar og Flona,“ segir um stuttskífuna.

Venus er verkefni sem varð algjörlega nátturulega til. Við erum báðir nátthrafnar og stóðum saman næturvaktina í stúdíóinu. Við skiptumst á að pródúsera, semja texta, þróa hugmyndir og kasta boltanum á milli, segir Floni

Lagið Týnd og einmanna hefur vakið mikla athygli og hefur verið spilað meira en 570 þúsund sinnum á Spotify.

Ásamt þeim Flona og Auði spilar Magnús Jóhann Ragnarsson inná nær öll lögin. Söngkonan Gugusar spilar og syngur einnig í einu lagi.

„Venus er afrakstur þess að við tveir samstillum okkur í að segja sögur og mála myndir með tónlistinni. Rannsakandi eigin líðan og hvernig hún endurspeglast hjá hvorum öðrum. Með því að vinna sem hópur styrkjum og skerpum við það sem gerir okkur einstaka,“ segir Auður.

Hér fyrir neðan má hlusta á lagið Týnd og einmanna.


Tengdar fréttir

Auður gefur út Afsakanir nótnabók

Tónlistarmaðurinn Auður gaf út Afsakanir 2. nóvember 2018 við frábærar móttökur. Þetta var önnur platan sem Auður gaf út, en sú fyrsta á íslensku.

Floni sviptir hulunni af nýju ilmvatni

Íslenski tónlistarmaðurinn Floni svipti í dag hulunni af nýju ilmvatni sem einfaldlega nefnist Floni Eau De Parfum. Floni Eau De Parfum er samstarfsverkefni milli Flona og Laugar Spa sem unnið hefur verið síðasta eina og hálfa árið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×