Þetta sagði von der Leyen að loknum leiðtogafundi Evrópuríkjanna sem fram fór í gærkvöld þar sem staðan í bóluefnamálum var til umræðu.
Evrópusambandið kennir lyfjafyrirtækjunum, og þá sérstaklega AstraZeneca, um hversu hægt hefur gengið að bólusetja í Evrópu en Íslendingar eru aðilar að þeim samningum sem Evrópusambandið gerði upphaflega við fyrirtækin.
Forvarsmenn AstraZeneca hafna því hinsvegar að hafa brotið samninga en von der Leyen segir ljóst að fyrirtækið verði að girða sig í brók og ná upp meiri framleiðsluhraða. Fyrr fái það ekki að flytja bóluefni sitt til annarra landa á borð við Bretland.
BBC greinir frá því að Emmanuel Macron Frakklandsforseti segi að þetta marki endalok þess sem hann kallaði „barnslega einfeldni“ sambandsins þegar kemur að málinu.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynnti nýjar hömlur á útflutning bóluefnis gegn kórónuveirunni í gær. Með reglugerð verður útflutningur á bóluefni frá aðildarríkjunum skilyrtur við hvort að bólusetningartíðni í innflutningslandinu sé hærri en innan sambandsins og hvort að innflutningslandið leyfi útflutning á bóluefni á móti.