Björgvin Karl Guðmundsson er efstur Íslendinga eftir 21.1 og 21.2 í opna hluta heimsleikanna í CrossFit og á góða möguleika á því að hækka sig með góðum árangri í lokavikunni.
Björgvin Karl náði fimmtánda sætinu í fyrsta hlutanum og varð síðan í 25. sæti í öðrum hlutunum. Hann er því með 40 stig þegar markmiðið er að vera með sem fæst stig.
Næstur á undan honum er Bandaríkjamaðurinn Mitchel Stevenson með 39 stig en efstur er Grikkinn Alex Kotoulas með 29 stig. Kanadamaðurinn Jeffrey Adler er í öðru sæti með 30 stig og þriðji er Bandaríkjamaðurinn Noah Ohlsen með 33 stig.
Björgvin Karl er sætum ofar en næsti íslenski maðurinn sem er Ingimar Jónsson með 467 stig í 107. sæti. Þriðji hjá íslensku strákunum er Sigurður Hjörtur Þrastarson (527 stig) í 122. sæti og fjórði er Haraldur Holgersson (841 stig) í 204. sæti.
Frábær árangur sextán og sautján ára stelpna hefur vakið athygli á fyrstu tveimur vikum opna hluta heimsleikanna í CrossFit.
Í efstu tveimur sætunum í kvennaflokki eru annars vegar hin sautján ára gamla Mallory O’Brien og hin sextán ára Emma Cary. Þær eru báðar á undan heimsmeistaranum Tia-Clair Toomey-Orr sem er þriðja.
Jóhanna Júlía Júlíusdóttir vann fyrsta hlutann er komin niður í áttunda sætið eftir annan hlutann. Jóhanna Júlía varð í 44. sæti í 21.2. Hún er með 45 stig eða jafnmörg stig og Haley Adams.
Táningarnir tveir eru með 11 og 15 stig og Tia-Clair er síðan með 18 stig. Næst á undan Jóhönnu er hin bandaríska Ellie Tarence Hiller með 36 stig.
Þuríður Erla Helgadóttir er næstefst af íslensku stelpunum í fjórtánda sæti (94 stig) en Katrín Tanja Davíðsdóttir er síðan í sautjánda sætinu með 96 stig.
Anníe Mist Þórisdóttir er fjórða sæti af íslensku stelpunum eftir frábæra frammistöðu í 21.2 en hún er í 192.sæti á heildarlistanum með 682 stig. Anníe Mist var í 662. sæti eftir 21.1 og hækkaði sig því um 490 sæti.
Andrea Ingibjörg Orradóttir er fimmta og Tanja Davíðsdóttir er í sjötta sæti af íslensku stelpunum.