Nokkuð algengt er að markverðir í handbolta verji tvisvar sinnum í röð. Öllu sjaldgæfara er að þeir verði þrjú skot í röð. Það gerði Rasimas hins vegar í leiknum gegn FH í gær.
Á 38. mínútu í leiknum, í stöðunni 16-14, átti Benedikt Elvar Skarphéðinsson skot af gólfinu sem Rasimas varði.
Arnar Freyr Ársælsson blakaði boltanum á Benedikt sem var í dauðafæri en aftur varði Rasismas. Arnar Freyr tók frákastið en Rasimas varði í þriðja sinn.
„Raaaaaaasimas ver! Hvað er í gangi hérna?! Rasimas er gjörsamlega að fara á kostum“ orgaði Ríkharð Óskar Guðnason sem lýsti leiknum á Stöð 2 Sport ásamt Jóhanni Gunnari Einarssyni.
Markvörslur Rasimas í lýsingu Rikka G má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
Rasimas átti góðan leik í gær og varði sextán skot, eða 36 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Það dugði þó ekki til því FH vann eins marks sigur, 28-27.
Rasimas, sem er landliðsmarkvörður Litáens, kom til Selfoss fyrir tímabilið og hefur leikið mjög vel með liðinu í vetur og er í hópi bestu markvarða Olís-deildarinnar.
Selfoss er í 6. sæti deildarinnar með sextán stig eftir fimmtán leiki.

Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.