Fótbolti

Á­nægður að lands­leikja­hlé sé fram­undan

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kjartan Henry Finnbogason er hann var tilkynntur sem leikmaður Esbjerg.
Kjartan Henry Finnbogason er hann var tilkynntur sem leikmaður Esbjerg. mynd/heimasíða esbjerg

Kjartan Henry Finnbogason, framherji Esbjerg í Danmörku, er ánægður að það sé landsleikjahlé framundan í dönsku deildinni.

Kjartan Henry er nefnilega meiddur og verður ekki með Íslendingaliðinu er það mætir Hobro í mikilvægum leik annað kvöld.

Þetta er síðasti leikurinn í deildarkeppninni áður en deildinni verður skipt upp í tvær sex liða deildir.

Kjartan Henry meiddist í toppslagnum gegn Viborg um síðustu helgi og má því horfa á leikinn annað kvöld úr stúkunni.

„Ég fékk högg gegn Viborg og verð því miður ekki tilbúinn fyrir leikinn gegn Hobro,“ sagði Kjartan við heimasíðu félagsins.

„Sem betur fer er svo landsleikjahlé framundan þar sem ég vonast til þess að tíminn hjálpi mér.“

Esbjerg er í þriðja sætinu í dönsku B-deildinni en tvö efstu liðin fara beint upp í dönsku úrvalsdeildina. Liðið er stigi á eftir Silkeborg og átta stigum á eftir toppliði Viborg.

Ólafur Kristjánsson er þjálfari Esbjerg en með liðinu leikur einnig íslenski framherjinn Andri Rúnar Bjarnason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×