Innlent

94 prósent hafa þegið eða segjast munu þiggja bólusetningu

Atli Ísleifsson skrifar
12.844 eru nú fullbólusettir hér á landi og er bólusetning hafin hjá 21.174 til viðbótar.
12.844 eru nú fullbólusettir hér á landi og er bólusetning hafin hjá 21.174 til viðbótar. Vísir/Vilhelm

94 prósent landsmanna hafa þegið eða hyggjast þiggja bólusetningu gegn kórónuveirunni COVID-19. Af þeim sem höfðu eða hugðust afþakka bólusetningu voru fimm prósent sem sögðust afþakka bólusetningu með bóluefni AstraZeneca ef þeim yrði boðin bólusetning með bóluefninu.

Færri sögðust hafa eða ætla að afþakka bóluefni frá Moderna (þrjú prósent), Janssen (þrjú prósent) og Pfizer (tvö prósent)

Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var í mars 2021.

Stuðningsfólk Miðflokksins ólíklegast

„Lítill munur reyndist á afstöðu svarenda eftir kyni eða búsetu. Svarendur 68 ára og eldri reyndust líklegastir til að segjast munu þiggja eða hafa þegið bóluefni (97%) en svarendur á aldrinum 18-29 ára ólíklegastir (93%). Lítill munur var þó á milli aldurshópa á hlutföllum þeirra sem kváðust ætla að afþakka einstök bóluefni.

Öllu meiri mun var þó að finna á svörun eftir stjórnmálaafstöðu svarenda. Stuðningsfólk Samfylkingarinnar (99%), Vinstri-grænna (98%) og Sjálfstæðisflokksins (95%) reyndist líklegast allra til að þiggja bóluefni en stuðningsfólk Miðflokksins (77%) ólíklegast.

Nokkurn breytileika var að sjá á hlutfalli þeirra sem kváðust hafa eða ætla að afþakka bóluefni frá einsökum framleiðendum. Alls kváðust 17% stuðningsfólks Miðflokksins, 8% stuðningsfólks Pírata, 7% stuðningsfólks Framsóknar og 6% stuðningsfólks Viðreisnar hafa eða ætla að afþakka bóluefni AstraZeneca en stuðningsfólk Miðflokksins (10%) og Pírata (7%) reyndist einnig líklegra en aðrir til að hafa eða ætla að afþakka bóluefni Janssen. Þá kváðust 5% stuðningsfólks Pírata og Framsóknar og 7% stuðningsfólks Miðflokksins hafa eða ætla að afþakka bóluefni Moderna og 5% stuðningsfólks Pírata og Miðflokksins og 4% stuðningsfólks Framsóknar kváðust ætla að afþakka bóluefni Pfizer,“ segir í tilkynningu á vef MMR.

Könnunin var framkvæmd dagana 5. til 10. mars 2021 og var heildarfjöldi svarenda 951 einstaklingur, 18 ára og eldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×