Fótbolti

„Verðirnir eru búnir að læra að halda kjafti“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Niels líflegur á hliðarlínunni í gær. Það dugði þó ekki til sigurs.
Niels líflegur á hliðarlínunni í gær. Það dugði þó ekki til sigurs. Lars Ronbog/Getty

Það fauk í Niels Frederiksen, þjálfara Brøndby, eftir leik gegn FC Nordsjælland í síðasta mánuði. Brøndby er meðal annars að berjast við FC Midtjylland á toppi deildarinnar og verðirnir á heimavelli FC Nordsjælland sögðu leikmönnum Brøndby að Midtjylland hefði tapað rétt fyrir leik Bröndby og Nordsjælland.

Brøndby spilaði svo aftur á eftir Midtjylland í gær. Toppliðið tapaði 2-0 fyrir botnbaráttuliði Lyngby á útivelli en Brøndby gerði markalaust jafntefli við Randers á heimavelli. Frederiksen segir þó að það hafi ekki lekið út, fyrir leikinn í gær, hvernig leikur Midtjylland hefði endað.

„Nei ,nei. Verðirnir eru búnir að læra að halda kjafti, svo þetta er fínt. Það var ekki neinn sem fékk að vita úrslitin en fyrir mig snýst þetta um að við erum einbeittir á okkur sjálfa og ekki að einbeita okur að því hvað hin félögin gera,“ sagði stjórinn.

„Það er ekki eitthvað sem við eyðum tíma okkar né kröftum í, eftir að við förum út í upphitun og þar á eftir.“

Unga stjarna Brøndby, Jesper Lindstrøm, sem hefur farið á kostum á leiktíðinni, sagðist ekki hafa vitað hvernig Midtjylland leikurinn fór áður en hann gekk út á völlinn í gær.

„Nei, ég vissi það ekki. Ég vissi fyrst af þessu eftir leikinn,“ sagði Lindstrøm.

„Ég hugsa ekki svo mikið um þetta því taflan er svo þétt og allt getur gerst. Auðvitað er það gott að þeir tapa en það er mikilvægara að við vinnum og það gerðum við ekki.“

Midtjylland er á toppi deildarinnar með 39 stig en Brøndby er stigi á eftir þeim í öðru sætinu. Hjörtur Hermannsson leikur með Brøndby en þeir mæta grönnum sínum í FCK á sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×