Í nýju hraunflæðilíkani er gert ráð fyrir að hraun muni renna í nágrenni og jafnvel yfir mögulegt flugvallastæði í Hvassahrauni eins og sést á bleiku flekkjunum á meðfylgjandi mynd, ef gos hæfist á Reykjanesi í yfirstandandi jarðhræringum.

Njáll Trausti Friðbertsson kom inn á þessi mál í sérstakri umræðu um innviði og þjóðaröryggi á Alþingi í dag.
„Værum við til dæmis þessa dagana vel sett með innanlandsflugvöll í Hvassahrauni. Væri það skynsamlegt ef til meiriháttar hamfara kæmi að vera með innanlandsflugið í uppnámi vegna staðsetningar í Hvassahrauni, Reykjanesbrautina lokaða vegna hraunrennslis og þar af leiðandi ótryggar samgöngur við alþjóðaflugvöllinn í Keflavík,“ spurði Njáll Trausti en hann hefur farið framarlega í baráttunni fyrir því að ekki verði hreyft við Reykjavíkurflugvelli.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segir samkomulag ríkis og borgar um könnun á kostum Hvassahrauns enn standa. En fyrstu rannsóknum á að ljúka undir lok þessa árs.
„Hins vegar er náttúrlega ljóst að ef þarna er að fara að gerast atburðir af þessari stærðargráðu þá mun það örugglega koma til endurmats,“ segir Sigurður Ingi.

Þorvaldur Þórðarson eldfjallasérfræðingur segir að samkvæmt nýjustu spá myndi annað hvort gjósa rétt sunnan við Keili eða austan við Trölladyngju í Móhálsadal, gjósi á annað borð á næstunni.
„Þá myndi hraun flæða norður og niður Hrútagjágengjuna í átt að Hafnarfirði og síðan í áttina líka að fyrirætluðu flugvallarstæði.“
Að hraun færi að minnsta kosti í kringum flugvallarsvæðið og jafnvel á það?
„Það gæti þess vegna farið yfir það. En mjög líklega í grennd við það. Einfaldasta leiðin til að líta á þetta er að flugvallarstæðið er inn á hættusvæði hvað hraunflæði varðar,“ segir Þorvaldur Þórðarson.
