Innlent

81 árs og eldri streyma í bólusetningu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá bólusetningunni í Laugardalshöll í morgun.
Frá bólusetningunni í Laugardalshöll í morgun. Vísir/Vilhelm

Í dag hófst bólusetning fyrir Covid-19 á einstaklingum í aldurshópnum 81 árs og eldri. Á höfuðborgarsvæðinu fer bólusetningin fram í Laugardalshöll en þangað eru þeir boðaðir sem fæddir eru 1939 eða fyrr að því er segir í tilkynningu frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Fólk fær boð um bólusetningu með SMS-skilaboðum og er fólk beðið um að fylgja tímasetningu sem þar kemur fram. Þeir sem eru á þessum aldri en hafa ekki fengið SMS skilaboð geta komið í Laugardalshöllina, milli kl. 9:00 og 15:00 annan hvorn daginn og fengið bólusetningu.

Fólkið fær sína fyrri Pfizer-sprautu í dag.Vísir/Vilhelm

Allir eru beðnir um að mæta með skilríki og er minnt á grímuskyldu. Bólusett er í axlarvöðva og í almennu rými. Því er fólk beðið um að koma klætt þannig að auðvelt sé að ná í stungustaðinn. Gott er að vera í stuttermabol innst klæða. Allir þurfa að bíða í 15 mínútur eftir að bólusetning er gefin.

Þessi kjarnakona virðist lítið kippa sér upp við sprautuna.Vísir/Vilhelm

Hafi fólk bráðaofnæmi við stungulyfjum, eða af óþekktum toga, er ekki ráðlegt að bólusetja það. Þeir sem ekki þiggja bólusetningu eru beðnir um að láta vita á netfangið bolusetning@heilsugaeslan.is eða i síma 513-5000.

Allir eru beðnir um að mæta með grímu.Vísir/Vilhelm
Frá Laugardalshöll í dag.Vísir/SigurjónÓ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×