Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - Valur 97-85  | Valsmenn höfðu ekki erindi sem erfiði í Grindavík

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Vísir/Hulda Margrét

Grindavík byrjaði leikinn betur og tók frumkvæðið strax í upphafi. Þeir áttu auðvelt með að skora gegn flatri Valsvörn og voru tilbúnir að berjast um alla bolta.

Dagur Kár Jónsson var mættur aftur eftir meiðsli og sýndi að hann ætlar að mæta af sama krafti og áður en hann meiddist. Hann leiddi heimaliðið áfram, vel studdur af félögum sínum sem voru margir að leggja í púkkið.

Heimamenn leiddu 31-24 eftir fyrsta leikhluta en Valsmenn náðu betur að halda í við þá í öðrum leikhluta og staðan í hálfleik 52-44. Að það hafi ekki munað meiru í leikhléi var Jordan Roland að þakka sem fór algjörlega á kostum í öðrum leikhluta en hann skoraði 22 stig í fyrri hálfleiknum, þar af sex þriggja stiga körfur.

Strax eftir hlé virtist sem Valsmenn væru klárir í slaginn. Þeir náðu að stoppa í götin í vörninni og trufluðu taktinn í sóknarleik Grindavíkur. Heimamenn settu hins vegar körfur þegar á þurfti að halda og Joonas Jarveleinen skilaði stigum fyrir utan þriggja stiga línuna.

Í fjórða leikhluta sýndu svo heimamenn klærnar á ný og sigldu frekar þægilegum sigri í höfn. Leikurinn var ekki spennandi undir lokin en Grindavík komst mest sextán stigum yfir.

Lokatölur 97-85 og mikilvægur sigur Grindavíkur í höfn.

Af hverju vann Grindavík?

Þeir voru grimmari á flestum sviðum leiksins. Þeir hentu sér í gólfið á eftir lausum boltum og sóknarleikur þeirra rúllaði vel lengst af. Valsliðið sýndi góðan varnarleik í upphafi þriðja leikhluta en þar með er það upptalið.

Varnarlega vantaði mikið uppá hjá Hlíðarendapiltum og sóknarlega voru of margir sem voru í dvala.

Það virðist vera komið fínasta jafnvægi í lið Grindavíkur, margir sem geta lagt í púkkið og skilað framlagi.

Þessir stóðu upp úr:

Marshall Nelson var góður hjá heimamönnum með 13 stig og 12 stoðsendingar. Það er gaman að fylgjast með honum spila og þrátt fyrir villuvandræði skilaði hann sínu og vel það. Dagur Kár Jónsson var sömuleiðis flottur og greinilegt að þeir stýra þessu Grindavíkurliði vel saman.

Joonas Jarveleinen var stigahæstur með 22 stig og þeir Ólafur Ólafsson og Kristinn Pálsson settu mikilvæg stig á töfluna og Ólafur barðist eins og ljón að vanda. Björgvin Hafþór Ríkharðsson og Kristófer Breki Gylfason spiluðu fína vörn á Jordan Roland í síðari hálfleiknum.

Jordan Roland var geggjaður hjá Val í fyrri hálfleik en ekki eins áberandi í þeim síðari. Jón Arnór átti ágætar rispur en annars var fátt um fína drætti hjá Valsliðinu.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur Vals var slakur lengst af. Þeir vinna ekki marga leiki ef þeir fá á sig nærri 100 stig og Finnur Freyr talaði um að það hefði vantað alla grimmd hjá Valsmönnum í vörninni.

Sinisa Bilic var í vandræðum í kvöld. Framlag hans var lítið og til að bæta gráu ofan á svart lét hann henda sér út úr húsi þegar hann fékk tvær tæknivillur með stuttu millibili, þá seinni fyrir tuð. Finnur Freyr Stefánsson var gjörsamlega brjálaður út í sinn mann og las honum pistilinn þegar hann gekk útaf.

Hvað gerist næst?

Grindavík á annan heimaleik á fimmtudag þegar þeir fá Hött í heimsókn. Sigur í þeim leik lyftir þeim ofar í töflunni og kemur þeim á fínt ról.

Valur á næst leik gegn Stjörnunni í Ásgarði. Það verður erfiður róður og sérstaklega ef þeir ná ekki að bæta sinn leik frá því í kvöld.

Daníel Guðni Guðmundsson var ánægður með sína menn í Grindavík í kvöld.

Daníel Guðni: Það er virkilega gott jafnvægi í liðinu núna

Daníel Guðni Guðmundsson þjálfari Grindavíkur var afar ánægður með frammistöðu síns liðs gegn Val í kvöld en Suðurnesjaliðið náði í tvö mikilvæg stig í baráttunni í deildinni.

„Þetta var risastór sigur fyrir okkur. Við erum með tvo nýja leikmenn og Dagur er kominn aftur eftir meiðsli þannig að maður vissi ekki alveg hvernig takturinn í þessu myndi vera. Heilt yfir er ég mjög sáttur með mína menn.“

Grindavík er búið að setja saman fínasta lið og marga leikmenn sem geta stigið upp og skilað mikilvægu framlagi, líkt og var raunin í kvöld.

„Það er virkilega gott jafnvægi í liðinu núna og menn þekkja hlutverkin sín sömuleiðis. Björgvin og Breki reyndu að hamast í Bandaríkjamanninum þeirra en hann er bara rosalega góður. Hann var að taka erfið skot en skoraði 22 stig í fyrri hálfleik og var 6/8 í þristum. Það dró aðeins af honum í seinni. Ég er mjög sáttur með hlutaverkaskipanina í liðinu og hvernig okkur hefur tekist að búa þetta til.“

Grindavík frumsýndi nýjan Bandaríkjamann Kazembe Abif. Hann skilaði engu stóru framlagi sóknarlega en var duglegur í vörn og Daníel var ánægður með hann.

„Hann var flottur á einhverjum 20 mínútum. Ég þarf ekki endilega leikmann sem getur skilað 20+ stigum í hverjum leik í þessari stöðu. Hann getur vel skorað 20 stig í hverjum leik en ég sé hann sem ógn í teignum, duglegan í fráköstum og í vörninni. Hann er duglegur leikmaður, talar mikið og það er mikil orka sem hann gefur frá sér.“

„Ég hef séð á ferli hans í Danmörku og Finnlandi að hann getur skilað mjög góðu framlagi og ég hlakka til að sjá næstu leiki með honum.“

Finnur Freyr Stefánsson þjálfari Vals.vísir/vilhelm

Finnur Freyr: Það vantaði alla grimmd og liðsheild í vörnina

Finnur Freyr Stefánsson þjálfari Valsmanna var töluvert ósáttari en kollegi sinn í Grindavík þegar Vísir ræddi við hann eftir leik.

„Það vantaði upp á grimmdina varnarlega. Mér fannst við líta út fyrir að vera að koma úr tveggja vikna fríi í staðinn fyrir tveggja vikna æfingaprógrammi. Mér fannst við flatir, það vantaði alla grimmd og liðsheildina í vörnina í byrjun. Það kom þegar leið á.“

Leikurinn var mikilvægur fyrir Valsmenn því þeir hefðu jafnað Grindvíkinga að stigum með sigri.

„Það eru allir leikir í þessari deild rosalega mikilvægir. Það er ákveðin úrslitakeppnisstemmning byrjuð strax. Maður getur ekkert ætlað að tækla einhvern einn leik öðruvísi en annan. Maður verður bara að fara af krafti inn og því miður fyrir okkur voru Grindvíkingar töluvert betur stemmdir og spiluðu betur en við í kvöld.“

Nýr Bandaríkjamaður Valsmanna sýndi að hann getur svo sannarlega sett stig á töfluna, sérstaklega í fyrri hálfleiknum. Hann var með 22 stig fyrir hlé og þar af sex þriggja stiga körfur.

„Hann kemur með það sem við vissum. Hann getur skorað og Grindavík gerir vel í seinni hálfleik að tvöfalda á hann og mæta honum af meiri grimmd. Mér fannst hann samt gera vel í að losa boltann og skapa færi. Það sem vantaði, sem gerist stundum þegar nýir menn koma inn, er takturinn í liðinu.“

Félagaskiptaglugginn lokaði í gær og liðin því komin með sína leikmannahópa á hreint. Hvernig sér Finnur deildina fyrir sér í framhaldinu?

„Deildin er gríðarlega sterk og öll lið vel mönnuð. Ef þú mætir ekki klár í þessari deild þá tapar þú. Sérstaklega þegar leikjaálagið verður mikið, við sáum það í fyrra hraðmótinu þegar það komu alls kyns úrslit.“

„Ég held að þetta verði meira af því sama. Það er ljóst að við þurfum að rífa okkur upp og vera klárir í hvern einasta leik,“ sagði Finnur Freyr að endingu.

Dagur Kár sneri aftur eftir meiðsli og átti fínan leik í kvöld.Vísir/Bára

Dagur Kár: Gaman að spila loksins með heilan hóp

Dagur Kár Jónsson sneri aftur í lið Grindavíkur í kvöld eftir meiðsli. Hann átti fínan leik, skoraði 18 stig og gaf 6 stoðsendingar.

„Mér fannst við virkilega flottir í dag nánast allan leikinn. Það kom smá bakslag í þriðja leikhluta en það var virkilega sterkt að snúa því aftur við og klára þennan leik. Valsmenn mættu klárir að spila í seinni hálfleikinn og þetta var flott.“

Dagur var ánægður með nýju leikmenn Grindavíkur. Marshall Nelson var að leika sinn annan leik og Kazembe Abif sinn fyrsta.

„Það er gaman að spila loksins með heilan hóp. Við erum með góða menn í hverri stöðu og á bekknum líka, við náum að halda uppi ákveðnu stigi á okkar leik sama hverjir koma inná. Þetta lítur mjög vel út.“

„Marshall er flottur spilari og tekur álagið af mér í bakvarðarstöðunni. Það var erfitt að þurfa að vera svolítið einn, hann kemur með meira jafnvægi og er virkilega flottur.“

Dagur ítrekaði mikilvægi þessa sigurs og þá staðreynd að Grindavík hefði skilið Valsara svolítið eftir með sigrinum.

„Mjög mikilvægur sigur. Við þurftum að byrja sterkt eftir þessa pásu og taphrinu fyrir pásuna. Það er mjög sterkt að byrja svona og við ætlum að byggja á þessu.“

Kristófer Acox var ekki ánægður með frammistöðu Valsliðsins í tapleiknum gegn Grindavík.vísir/vilhelm

Kristófer: Enginn að spila vörn og enginn á sömu blaðsíðu

Kristófer Acox var ósáttur með frammistöðu Vals í tapleiknum gegn Grindavík í kvöld.

„Aðallega var þetta varnarleikurinn, við fáum á okkur 100 stig og vorum að spila mjög slappa vörn fannst mér alveg frá fyrstu mínútu. Við byrjum strax að elta og náum aldrei að komast yfir þennan múr að jafna eða komast yfir,“ sagði Kristófer í samtali við Vísi að leik loknum í kvöld.

Valsliðið hafði aldrei forystuna í leiknum en héldu sig samt í námunda við heimamenn og virtust ætla að bíta frá sér í þriðja leikhluta þegar varnarleikurinn lagaðist.

„Þeir eru þannig lið að þegar þeir byrja að setja þessi villtu og erfiðu skot er mjög erfitt að eiga við þá. Það er mjög erfitt að byrja á því að elta.“

„Það er svolítið okkar að við sýnum inn á milli hvað við getum verið öflugir og spilað góða vörn, sýnum það í 1-2 varnir og svo er þetta meira af því sama gamla. Enginn að spila vörn og enginn á sömu blaðsíðu. Við gefum of mikið af auðveldum stigum og það er eitthvað sem við eigum langt í land með.“

Finnur Freyr Stefánsson þjálfari Vals sagði að það hefði verið eins og Valsliðið hefði verið að koma úr tveggja vikna fríi frekar en tveggja vikna æfingum.

„Við nýttum þessa pásu eins og flestir, reynum að æfa en við erum að fá inn tvo nýja leikmenn. Ég náði ekkert að æfa í hléinu. Fyrir hlé vorum við ekkert á góðum stað sem lið en við erum með mikið af leikmönnum og þurfum að koma þeim öllum á sömu blaðsíðuna,“ sagði Kristófer.

„Menn þurfa að draga inn andann, róa okkur niður og finna sjálfstraustið. Það eru mjög margir í liðinu okkar að spila töluvert undir getu en við höfum ekki tíma til að vera að gera mistök. Við höfum ekki þann lúxus að geta misst tvö eða fjögur stig hér og þar.“

Fyrir leikinn voru Valsarar tveimur stigum á eftir Grindavík í 9.sætinu en missa Suðurnesjaliðið fram úr sér núna.

„Við erum ekki í sæti fyrir úrslitakeppni eins og er. Ef við ætlum okkur að gera eitthvað í þessu móti þá þurfum við að koma í alla leiki til að vinna og sækja tvö stig.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira