Helga Guðrún sagði Ragnar hafa klofið samstöðu verslunarmannafélaga við gerð síðustu kjarasamninga til að ganga í bandalag með Eflingu. Hann sagði lífskjarasamningana hins vegar hafa skilað auknum kaupmætti upp á tíu prósent og kjarabótum í gegnum barnabótakerfi, húsnæðiskerfið og með lækkun vaxta.
Helga Guðrun sagði þetta stolnar fjaðrir þar sem Ragnar hefði rokið á dyr í miðri samningagerð.
„Kosningabaráttan snýst um það meðal annars að þú raufst samstöðuna og fórst að gera bandalag við Eflingu. Þú skildir félaga þína eftir. Það er ekki mjög gott hjá formanni stéttarfélags að skilja félagana sína eftir," sagði Helga Guðrún.
Ragnar Þór sagði þetta alrangt. Mikil samstaða hafi ríkt um lífskjarasamningana þegar þeir voru undirritaðir.
Þá tókust þau mikið á um stöðu stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Helga Guðrún sagði afskipti formanns VR af henni óeðlileg og af pólitískum toga. Formaðurinn talaði stöðugt um spillingu innan stjórna lífeyrissjóða.
Sjálf sagðist Helga Guðrún hafa á árum áður starfað innan Sjálfstæðisflokksins en gengið úr honum fyrir mörgum árum og þar með sagt skilið við flokkapólitík.
„Ef ég skil hann rétt felst spillingin fyrst og fremst í því að lífeyrissjóðirnir eru ekki að þjóna almenningi. Eru ekki að þjóna sjóðsfélögunum nógu vel. En það eru sjóðsfélagar sem eiga sjóðina Ragnar,“ sagði Helga Guðrún.
“Nákvæmlega, ef ég má svara. Það eru sjóðsfélagar sem eiga lífeyrissjóðina og hvað er búið að vera mitt helsta baráttumál? Að sjóðsfélagar kjósi stjórnir lífeyrissjóðanna. Aftengja atvinnurekendur og atvinnulífið í skipun stjórna lífeyrissjóðanna sem við eigum, sem sjóðsfélagar eiga. Það eru sjóðsfélagar sem eiga að skipa í stjórnir lífeyrissjóðanna. Ekki verkalýðshreyfingin og ekki atvinnurekendur,“ sagði Ragnar Þór.
Hægt er að horfa á þáttinn, sem var rúmar 70 mínútur og mjög fjörugur í heild sinni hér á Vísi.