Handbolti

„Erum búnir að vera í veseni að loka sigrum hérna í Eyjum”

Einar Kárason skrifar
Sigursteinn Arndal var ánægður með sína menn í dag.
Sigursteinn Arndal var ánægður með sína menn í dag. vísir/vilhelm

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var að vonum ánægður með sigur á ÍBV í Olís deild karla í dag.

„Það er hárrétt hjá þér. Við vissum að þetta myndi sveiflast í allar áttir, en já. Ég er rosalega ánægður. Það þarf ekki að vera neitt leyndarmál. Við erum búnir að vera í veseni að loka sigrum hérna í Eyjum síðustu ár þannig að þetta var karakter og við vorum búnir að bíða lengi eftir þessu,” sagði Sigursteinn.

Eftir jafnan fyrri hálfleik áttu Hafnfirðingar frábæran 10 mínútna kafla í upphafi þess síðari.

„Við töluðum um það í hálfleik að við vildum spila okkar bolta og okkar bolti er að hlaupa mikið og spila á háu tempói. Við náum því upp í seinni hálfleik og fengum fullt af auðveldum mörkum sem skilaði sér í góðum sigri.”

„Ég myndi taka liðsheildina,” sagði Sigursteinn um hvað hann hefði verið ánægður með í leik sinna manna.

„Eins og ég segi, við vorum í erfiðleikum í fyrri hálfleik og að mæta frábæru liði og við stóðum það af okkur. Eitthvað sem er búið að reynast okkur erfitt og kláruðum að lokum góðan sigur.”


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×